Skírnir - 01.01.1915, Blaðsíða 110
110
Gátur.
Sumar nafnagátur eru úr sömu skúffu:
Bóndinn heitir baulusou,
börn bans kisa og tóa.
Annars er oftast sagt hvar nafnið er að finna: Menn
bera það á öxlinni, á fótunum, í vasanum eða milli sín.
Sumir sjá það út um gluggann eða hafa það hálft í hendi
sér en hálft á hafið út. Dæmi er til þess, að »bóndinn er
á austurfjöllum, konan er við sjávarströndu, sonurinn milli
fjóss og bæjar, dóttirin í hverju húsi«. »Maður fór út
um nótt og rak alt féð ofan í hann föður sinn«. Eitt
nafn er á öllu, annað af öllu. Eitt bæjarnafn nefnir sig
sjálft. Einn maður heitir það sem fátækir eru. Ein kon-
an heitir eins »aftan bæði og framan« og önnur heitir
það, sem »hverri kind hentar bezt um æfi«. Og stundum
fela nöfnin sig í eins sakleysislegum setningum og »Oræn
grös gróa milli steina« eða »Hvað hét hundur karls?«
Rímnaskáldin höfðu sérstaka aðferð til að »binda«
nöfn sín, og læt eg mér nægja að vísa til ritgerðar um
það efni hér í »Skírni«, eftir Pál E. Olason.
Allur fjöldinn af gátum á rót sína í athugun á ein-
hverri líkingu. Svo er um Svingsargátuna frægu: »Hvaða
dýr er ferfætt að'morgni, tvífætt um hádegi, þrífætt að
kvoldi?« Mennirnir hafa snemma fundið líkingu með
æfiskeiði mannsins og deginum, enda er talað um »morg-
un æfinnar«, sagt að æfisólin sé komin í hádegisstað, talað
um »æfikvöld« osfrv. Hins vegar er það kallað að skríða
á fjórum fótum, er menn hreyfa sig á höndum og fótum.
Þá lá það nærri að líkja stafnum við fót, þar sem sams-
konar hlutir heita fætur á stólum, borðum osfrv. Málið
er fult af slíkum líkingum, þær eru sálin í því. Sá sem
hugleiddi annars vegar líkinguna milli æfinnar og dagsins
og hins vegar milli stafs og fótar, hann gat búið til
Svingsargátuna. Gáturnar lifa einmitt á þeím eigin-
leika málsins, að það getur lýst einum hlut með orð-
um sem upphaflga voru sniðin fyrir annan, ef einhver
líking er á milli. Og þær eiga í því sammerkt við frum-
legan skáldskap, að þær ná inn í málið líkingum, sem.