Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1967, Blaðsíða 81
VEIÐITÆKI OG VEIÐIAÐFERÐIR VIÐ MÝVATN
85
en þiljan var fleki, sem lá í botni bátsins og veiðimaðurinn stóð á,
þegar hann gaf út netin með báðum höndum eða tók þau inn áð
morgninum.
Á einum bæ var stunduð veiðiaðferð, sem nefndist niðurseta, að
setja niðar net, og var aðallega notuð við urriða, þegar hann var
genginn á rið upp að austurströnd vatnsins. Sú veiðiaðferð var þannig,
að netin voru lögð frá landi fram fyrir grunnin og upp að landinu
aftur hinum megin. Síðan var róið á grunnin og silungurinn fældur
í netin. Þá var róið meðfram þeim og silungurinn tekinn úr. Ekki
var þetta hægt nema farið væri að skyggja. Stundum voru hring-
lögð riðagrunn, sem hvergi lágu að landi, og farið eins að, en þar
var frekar um bleikjusilung að ræða. Þá var alsiða að hafa hængja-
net undir ís á riðagrunnum. Þannig voru höfð öll spjót úti til að veiða
silung á hvaða tíma árs sem var.
Þá er eftir sú veiðiaðferðin, sem almennust var, því hana stunduðu
allir hreppsbúar, svo sem þeir höfðu atorku til eða mannafla. Það var
dorgarveiðin. Unglingar voru vandir við hana strax og þeir höfðu orku
til, og hafa vafalaust margir beðið þess dags með óþreyju, er þeir
fengu að fara á dorg, hvað þá að draga bröndu.
Það sem allir þurftu að hafa, þegar farið var á dorg, var dorg,
dorgarskrína, maðkahorn eða annað ílát undir maðkinn, og svo ísa-
broddur, þó að til væri að ekki allir hefðu hann, sízt unglingar.
Dorgarskrínurnar voru misstórar og ekki smíðaðar eftir neinum
reglum, en segja mætti, ef við eitthvað var miðað, að hæðin hefði
verið sú, að dorgarmaðurinn hefði ekki þurft að sitja krepptur á
skrínunni. Breiddin i/j,—Vs af hæðinni, lengdin um alin eða rúmlega
það. Neglt var yfir um ~/s af opinu til endanna, en ekki miðjuna, því
þar var silungurinn látinn ofan í skrínuna. Á síðari árum höfðu sumir
lok á leðurhjörum yfir miðjunni, og var skrínan þá betri til ásetu.
Á göflum voru göt eða eyru, sem kaðall var þræddur í, og skrínan
borin í honum á öxlinni.
ísabroddar voru mislangir, um og yfir 2 álnir upp á húninn. Brodd-
járnið var sívalt, með hvössum oddi, og gekk upp í digmstöngina, sem
var búin járnhólk neðst, svo hún klofnaði ekki, þó að járnið væri
rekið upp í hana, enda borað fyrir því neðan til. Efri hluti stangar-
innar nefndist mjóastöng, en um hana var haldið, þegar vakað var,
og húnninn var efst á henni.
Dorgin var smíðuð úr horni og þurfti að vera búin taumi, sökku
og öngli. Taumurinn var snúinn saman úr fínu líni eða grófum tvinna.
Hann mátti ekki vera of sver, enda mýktist hann við notkun.