Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1971, Qupperneq 180
180
STOFNUNARSÖFN HÁSKÓLA
rekstri en stofnunarsöfnin. Slík söfn ættu og að vera hagkvæmari fræðimönnum, þar
sem á einum stað má finna skyld efni. Þannig eru t. d. bókmenntaverk ýmissa landa
í einu safni, en ekki dreifð á mörg stofnunarsöfn. Gert er ráð fyrir, að samstevpusöfn
geti tekið breytingum þannig, að flytja megi bækur eftir þörfum milli aðalsafns og
samsteypusafna og einnig milli samsteypusafna innbyrðis eftir þvi, sem tengsl fræði-
greina kunna að breytast (6, s. 57 og 59-60).
í Bandaríkjunum hefur verið komið á fót raunvísindasöfnum (e. ‘science libraries’),
þar sem öllum raungreinum er steypt saman í eitt safn. Kemur slíkt safn í stað
margra stofnunarsafna í þessum greinum. Einnig hafa verið skipulögð raunvísinda-
söfn í tvennu lagi. Annar hluti þeirra tekur til tækni og efnisvísinda, en hinn hlutinn
lil líffræði og skyldra greina. Talið er, að í raunvísindasöfnum sem þessum sé hægara
að koma við nauðsynlegri þjónustu en við lítil stofnunarsöfn (17, s. 14.5).
4. Nýliðasöfn. Áður hefur verið minnzt á þessi söfn. Eru þau einkum ætluð þeim
stúdentum, sem eru á lægra stigi háskólanáms. Hér er því dæmi um deildaskiptingu
eftir notendum. Söfn þessi eru allalgeng í Bandaríkjunum. Hefur þótt hagkvæmt að
mynda slík söfn, ef fjöldi stúdenta er mikill og háskólabókasöfnin mjög stór. Eiga nýir
stúdentar hægara um að átta sig á litlu nýliðasafni en risavöxnu háskólabókasafni (21,
s. 44-45).
Að minnsta kosti eitt háskólabókasafn á Norðurlöndum (safnið í Jyváskylá) gerir
ráð fyrir nýliðasafni í framtíðaráætlun sinni. Segir þar, að þegar um þrengist á lestr-
arsal og í útlánadeild, verði úr því bætt með stofnun sérstakra nýliðasafna (23, s. 52).
5. Aðalsafn og stofnunarsöfn. Óhætt er að fullyrða, að stofnunarsöfnin séu eðlilegt
andsvar við þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í vísindastarfsemi. En hvort sem
slik stofnunarsöfn eru æskileg, eins og t. d. Tveter&s heldur fram (26, s. 3), eða ekki,
eru þau viðurkennd sem ein lausn, er að því miði að gera háskólabókasöfn aðgengi-
leg notendum (sbr. 21, 396. gr., s. 103). Ef sum stofnunarsöfn hafa brugðizt þessu
hlutverki, stafar það af því, að ekki var nógu vel kannað í upphafi, hvort þeim væru
búin hæfileg lífsskilyrði. Til þess að stofnunarsöfn komi að góðu gagni og þrífist,
verður að vera unnt að koma á náinni samvinnu milli þeirra og aðalsafns. Slík sam-
vinna er háð ákveðnum skilyrðum, sem vikið verður að í næsta kafla.
Með þessari lausn er gert ráð fyrir, að aðalsafn og stofnunarsöfn skipti með sér
verkum og þessar tvær tegundir safna bæti hvor aðra upp. Er ætlazt til, að aðalsafn
og stofnunarsöfn myndi net eða kerfi og aðalsafnið sé sá aðili kerfisins, sem annist
samræmingu. Auk þess sér aðalsafn um ýmis sameiginleg störf, sem óhagkvæmt eða
ógerningur er að framkvæma á mörgum stöðum. Það hýsir þær hækur, sem sam-
eiginlegar eru mörgum fræðigreinum, og tekur við þeim bókum stofnunarsafna, sem
lítt eru notaðar (23, s. 45). Enn eitt dæmi skal nefnt um hlutverk aðalsafns. Nú á tím-
um einkennir sérhæfing mjög alla rannsóknarstarfsemi. Hins vegar taka menn eftir,
að sérgreinar verða æ háðari hver annarri. T. d. er kunnugt, að stór hundraðshluti
greina, sem varða tiltekna sérgrein, birtist ekki í tímaritum þessarar sérgreinar, heldur
í tímaritum ýmissa skyldra greina eða hliðargreina og jafnvel fjarskyldra greina (20,