Andvari - 01.01.1998, Blaðsíða 88
ÁRMANN JAKOBSSON
Efinn kemur til sögu
Nýtt líf Jóns Thoroddsens
Mestur mælskumaður í skóla og um leið ritfærastur sem bókmenntadómari þótti Jón
Skúlason Thoroddsen. Hann var í 6. bekk. Hann var maður glæsilegur, hár vexti og
beinvaxinn, frjálsmannlegur og kvikur í hreyfingum, eygur vel, svipmikill og fjörlegur
á yfirbragð, fyndinn, orðheppinn, orðhvatur, en þó ekki grófyrtur.1
Þannig hefst frásögn Guðmundar G. Hagalíns um jafnaldra sinn og skóla-
bróður í Menntaskólanum í Reykjavík, Jón Thoroddsen. Seinna urðu þeir
báðir rithöfundar en skáldskapurinn gæti vart hafa verið ólíkari.
Árið 1922 komu út Flugur Jóns Thoroddsens en sú prósaljóðabók hefur
verið álitin einstakt leiftur í íslenskri bókmenntasögu, dularfullur fyrirboði
þess módernisma sem koma skyldi en úr tengslum við íslenskar bókmennt-
ir síns tíma. Jón lést tveimur árum síðar og sendi aldrei frá sér aðra bók.
Guðmundur varð hins vegar langlífur og ein mesta hamhleypa í hópi rit-
höfunda á sinni tíð, mikilvirkt sagnaskáld og ævisagnaritari. Meðal mestu
verka hans er sjálfsævisaga í átta bindum. Þar lýsir hann kynnum sínum af
Jóni Thoroddsen.
7. Aldamót í Björnsbakaríi
Þessi staður og stund urðu brennipunktur í íslenskri bókmenntasögu. I
þeim smábæ sem Reykjavík var þá, í eina menntaskóla landsins, hittust ís-
lenskir unglingsstrákar hvaðanæva af landinu meðan heimsstyrjöld geisaði
í Evrópu og mynduðu heim skálda. Tómas Guðmundsson orti síðar um
sextán skáld í fjórða bekk. Hér mættust auk hans Jóhann Jónsson, Davíð
Stefánsson, Sigurður Einarsson, Guðmundur Hagalín og Halldór Laxness.
Og yfir þeim vokaði Jón Thoroddsen, mælskumaður og gagnrýnandi:
Hann skrifaði í skólablaðið ritdóma um kvæði, sögur og greinar, sem skólasveinar
birtu, og vöktu dómar hans ekki minni eftirtekt en snjöllustu ljóðin, sem komu frá
hendi Jóhanns Jónssonar.