Andvari - 01.01.1998, Blaðsíða 72
70
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
ANDVARI
síns og samferðamanna. Niðurstaðan af slíkum lestri verður sú að Grímur
hafi sjálfur verið einhvers konar nátttröll í nútíð sinni eða bergrisi, og því
hafi hann ekki átt skap við samtímamenn sína. Þessu til stuðnings má síðan
tína til ýmisskonar missætti Gríms við þá sem voru honum samferða, og
ekki síst öll þau ókjör af kvæðum sem hann orti um fyrri tíma, þá tíma sem
hann, samkvæmt „ævisögunni“ var fastur í. í formála að ljóðmælum Gríms
segir Sigurður Nordal:
Þegar hann leitar fornaldarinnar, eins og honum er tíðast, brýtur hann ekki haugana
til þess að sækja þangað vopn, heldur til þess að finna þar athvarf, setjast þar að
sumbli með mönnum sem voru honum að skapi:
í fornöldinni
fastur eg tóri,
í nútíðinni
nátttröll eg slóri.
Mikið af skáldskap hans er er blátt áfram leit að betri félagsskap en lífið bauð honum.4
Það fyrsta sem ég staðnæmist við í þessari klausu er hvernig Sigurður, að
því er virðist fyrirhafnarlaust, gerir vísuorð Gríms að sjálfstjáningu. Fyrir
því er enginn frekari rökstuðningur, nema ef til vill sú hringrökfærsla sem
byggð er inn í mál Sigurðar, lýsingin á skáldinu kallar á dæmið, sem síðan
réttlætir lýsinguna. Sú lýsing á Grími sem kvæðið er fellt inn í er ekki síst
merkileg fyrir það hvernig Sigurður endurritar myndmálið sem kvæði
Gríms byggir á. í stað myndarinnar af blóðþyrstu og ómennsku nátttrölli
setur Sigurður mynd af hetju sem brýtur hauga til þess að komast á fund
sinna líka. Þannig verður ótamið náttúruafl að friðsömum rannsakanda eða
jafnvel einhverskonar fornleifafræðingi, sem kannar grafir fornmanna af
forvitninni einni saman og vegna hugboðs um það að haugbúar séu skárri
félagsskapur en sú nútíð sem hann slórir í.
Merking kvæðisins í þessari endurritun Sigurðar er augljós; það er einlæg
sjálfslýsing manns sem festir ekki yndi í samtíðinni og leitar þess vegna á
vit fortíðarinnar, þar sem hann finnur fró í félagsskap sem er honum að
skapi. Páll Valsson orðar sömu hugsun og Sigurður tæpum sjö áratugum
síðar í þriðja bindi Islenskrar bókmenntasögu:
Þegar allt þetta er metið [þ.e. pólitísk og persónuleg jaðarstaða Grímsj er ekkert ein-
kennilegt að Grími hafi fundist hann vera utangarðs og lítt kært sig um samtímann.
Um þetta fjallar hann sérstaklega í kvæðinu Bergrisi á 19. öld, þar sem titillinn vísar
til hans sjálfs. Þar segir hann m.a.:
Aum finnst mér öldin,
atgervið mornar;
kveð eg á kvöldin
kraftrímur fornar.