Andvari - 01.01.1998, Blaðsíða 163
ANDVARI
UNDARLEG ANDVARAGREIN
161
sama kaflanum, stundum með dálitlum tilbrigðum og skapa þannig stef og um leið
vissa hrynjandi [. . .]
Annað atriði sem vakti athygli er hvernig Sigurjón byrjar Glæsimennsku, en hún
hefst á þessari setningu: „Hver er að baka pönnukökur? Ha?“ - og bregður skáldið
svo upp svipmynd af götu í Reykjavík.
Hér kemur að annarri vanrækslu ritstjóra Andvara. Hann hefði manna
fyrstur átt að taka eftir því, að þessi röksemd Árna um formnýjungar er
hrakin í þessu sama Andvarahzíú, í grein Sveins Skorra um Einar Kvaran,
þar sem hann lýsir blæstefnu (impressjónisma) Einars, sem birtist aldar-
þriðjungi fyrr en tilvitnað dæmi hjá Sigurjóni (bls. 90);
íslendingasögur hefjast yfirleitt á breiðum inngangi með kynningu á sögusviði, per-
sónum og ætt þeirra. Sömu aðferð beitti Jón Thoroddsen í sínum sögum, Páll Sig-
urðsson í Aðalsteini og Porgils gjallandi í Upp við fossa. Einar hefur sínar sögur yfir-
leitt í atburðarásinni miðri. „Afram, áfram! Áfram móti gustinum, sólþrungnum,
glóðheitum, sem andar á innflytjandann, ef hann stingur höfðinu út úr vagngluggan-
um“. Pannig slær hann upphafstaktinn í Vonum. En hvað hann rignir! Yfirdóm-
aradóttirin hagræddi sér í ruggustólnum heldur makindalega, spenti greipar uppi á
höfðinu, teygði úr fótunum og setti hægri hælinn ofan á vinstri ristina." Þetta eru
fyrstu línurnar í Ofurefli. Og Sögur Rannveigar hefjast með svipuðum hætti: „- Jæja -
ætli hann fái ekki þetta borgað?. . . Og bölvaður! Þessa illmensku hefði enginn getað
látið sér til hugar koma annar en Þorsteinn á Völlum! Mikill voðamaður er hann!“
Árni vitnar í grein mína (frá 1989 um expressjónisma Halldórs Stefáns-
sonar) um þvílík stíleinkenni, setningabrot og upphrópanir. Vissulega
munu þau ættuð frá framangreindum stíleinkennum blæstefnu, en mér sýn-
ist þó munur á. í blæstefnusögum er þetta stílbragð mest til að sýna hverf-
ult hugarástand persónu, ekki síst þegar því bregður frá hversdagsleik-
anum. En Halldór Stefánsson notar setningaslitrur, hljóðlíkingar og an-
kannalegar líkingar einkum til að gera lýsingu sögusviðs annarlega, og
fjarlægja þannig sögumann frá sögupersónum og lesendum. Ég þykist hafa
gert þessu efni ítarlegri skil í bók minni Kóralforspil hafsins (1992). En
sjálfsagt er hún óvíða til á bókasöfnum miðvesturríkja USA.
Hvað varðar „endurtekin stef“, þá virðist mér það stagl tilefnislaust í
sögu Sigurjóns, og þarafleiðandi ekki gegna öðru hlutverki en því að þreyta
lesendur, þetta er eitt af því sem sýnir hve lítil tök Sigurjón hafði á sagna-
gerð. Að öllu þessu samanlögðu sýnist mér ekki standa steinn yfir steini í
kenningu Árna, og það hefði samviskusamur ritstjóri átt að geta sýnt hon-
um fram á fyrir birtingu.
Ég þykist þekkja mitt heimafólk svo vel, að nú muni einhverjir tauta:
„Af hverju mega þessir menn ekki hafa sitt í friði, hvað hafa þeir gert
þér?“ Svar: Þeir hafa ekkert gert mér, ég á ekkert sökótt við þá. En svona
mistök verður að átelja, annars kafnar öll menningarumræða í gagnrýnis-