Andvari - 01.01.1998, Blaðsíða 8
6
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
kveðinn upp endanlegur dómur.“ Bjarni segir einnig að fáir íslendingar
hafi í lifanda lífi verið umdeildari en Jónas, en „jafnvel þeir sem honum
voru í meginatriðum andsnúnir verða að viðurkenna hans miklu áhrif.“
(Mbl., Reykjavíkurbréf, 18. ágúst 1968).
Það eru einmitt áhrifin á samtíðina sem hér skipta máli. Þau eru ekki
bundin formlegum þjóðfélagsstöðum. Jónas frá Hriflu var að vísu ráðherra
í nokkur ár, en margir hafa haft jafnmikil völd og hann að formi til, ýmsir
meiri, og skildu þó varla eftir sig nein merkjanleg spor. Áhrif Jónasar fólust
í hugmyndaauðgi hans, pólitískri yfirsýn og hæfileika til að orka á hugi
manna í málflutningi og persónulegri kynningu. Það má líka taka dæmi úr
sögu íslenskrar kirkju og kristni. Séra Friðrik Friðriksson var vafalaust
mesti kristindómsboðandi íslendinga á þessari öld og gegndi hann þó eng-
um forustustörfum innan þjóðkirkjunnar. Þarna kom til sú trúarlega köllun
sem hann hlaut og hið persónulega áhrifavald sem hann hafði yfir ungum
mönnum.
Á þessu ári kvaddi þjóðin höfuðskáld sitt, Halldór Kiljan Laxness. Ársins
1998 verður minnst sem dánarárs hans. Penninn var hans veldistákn. Og
Halldóri entist gæfa til að neyta snilligáfu sinnar, lifa og starfa langan aldur.
Á sínum ferli var hann sá maður sem brá stærstum svip yfir bókmenntir og
ritlist þjóðarinnar, mótaði íslenskan stíl fremur en nokkur annar maður. Og
meir en það: hann setti með sínum töfrafulla penna svip á allt andlegt líf í
landinu. Það sem hann snerti, í sögum sínum, ljóðum, greinum og ritgerð-
um, sjáum við síðan með öðrum augum. „Hann var ljós allrar þjóðarinnar,
frekar en nokkur annar maður á okkar tímum,“ eins og skáldið Jón úr Vör
komst svo vel að orði. Jón kveðst hafa dáð Halldór alla tíð og bætti við:
„Engu skipti þótt ég væri ekki alltaf sammála honum.“ (Mbl. 10. febrúar
1998).
Þarna kemur fram að Halldór Laxness var umdeildur maður í þjóðfélag-
inu, eins og Jónas frá Hriflu. Framan af tók hann mikinn þátt í umræðum
um opinber mál og var þá hvassyrtur og illskeyttur svo að undan sveið. Síð-
ustu áratugi ævinnar sat hann á friðarstóli og naut þá mikillar virðingar,
nánast lotningar sem goð á stalli. Hinn umdeildi Halldór Kiljan þokaði í
skuggann og kannski er yngra fólki ekki ljóst að á sínum tíma stóð ekki
eins mikill styrr um nokkurn rithöfund í landinu og hann. Það mátti segja
að heilar stéttir legðu á hann fæð, til dæmis bændur sem fyrirgáfu honum
seint lýsingar Sjálfstæðs fólks á lífi einyrkjans í heiðinni. En átök Halldórs
við samtíð sína fyrr á tíð eru ekki síður forvitnileg en hyllingin á honum á
efri árum. Áhrif manna geta nefnilega komið fram í því að ögra öðrum
mönnum og stæla þá til andstöðu. Myndin af skáldinu er ekki heil nema