Andvari - 01.01.1998, Blaðsíða 94
92
ÁRMANN JAKOBSSON
ANDVARI
Ég elskaði eittsinn stelpu. Hún
var heimsk, og ég var vitlaus.9
Þannig hefði Dagur varla ort nema vegna áhrifa frá Jóni Thoroddsen.
Þessi hálfkæringur í garð ástarinnar veldur því að hún er flóknara fyrir-
bæri en í ljóðum rómantískra og nýrómantískra skálda. Jón skynjar ástina
sem sjálfhverfa: ástin er ást á sjálfri sér. Það er kannski engin tilviljun að
eina ástarljóð Flugnanna sem hefur góðan endi fjallar ekki um ást karls og
konu. Það er flugan um Oscar Wilde, „Vita nuova.“
Undarlegur söngur vaknar í huga hans. Hann er útlagi, sem á heima handan við haf-
ið. Þar bíður hans eitthvað, sem hann elskar.
Þú, sem ég elska.
Ég hrindi bátnum úr nausti, því að ég er sjúkur af heimþrá. Og ég hrópa til þín yfir
hafið:
Með hvítum seglum stefnir hann að ströndum þínum, útlaginn, sem elskar þig. (39)
Eins og Gísli Sigurðsson hefur bent á má leiða rök að því að þessu ljóði sé
ætlað að verða eins konar niðurstaða annarra ástarljóða bókarinnar.10 Sú
niðurstaða er þá að ástin snúist um sjálfa sig enda er sá sem ávarpaður er
fjarlægur og sama kyns og sá sem elskar.
Útlegðin sem ljóðið snýst um er táknræn og þú sem útlaginn elskar getur
haft víðtæka skírskotun. En um leið er skírskotað til Oscars Wilde sem
elskaði Alfred Douglas sem dvaldi erlendis meðan Wilde sat í fangelsi.
Samband þeirra var bannyrði í Englandi fram yfir seinna stríð og ekki síð-
ur á íslandi þar sem aldrei er minnst á slíkar ástir í riti fyrr en löngu síðar.11
Allir gátu sameinast um að dæma Oscar Wilde en Jón kaus að skilja hann í
staðinn og halda uppi vörnum fyrir hann, eins og Virginia Woolf, E. M.
Forster, Lytton Strachey og félagar þeirra í Bloomsburyhópnum gerðu á
árunum fyrir stríð.
Eins og kom fram í frásögn Guðmundar Hagalíns mun ekkert skáld er-
lent hafa haft viðlík áhrif á Jón Thoroddsen og Oscar Wilde. Til hans sækir
hann skartdýrkunarstíl leikrita sinna.12 Sumar flugur Jóns bera einnig vitni
þeim stíl. Þá er greinilegt á frásögn Guðmundar Hagalíns að Jón hefur til-
einkað sér háðskan tón Oscars Wilde sem í felst uppreisn gegn siðavendni
Viktoríutímabilsins og birtist í siðleysi og afstæðishyggju. Listin á að hafa
tilgang í sjálfri sér, „l’art pour l’art“, en ekki skýran siðbætandi móral eins
og Guðmundur Hagalín og hin rómantísku skáld nítjándu aldar kusu. Hún
á að vera, ekki boða. List á að vera annað en speki. Eða eins og Jón orðaði
það í Skinfaxa, blaði menntaskólanema, á því herrans ári sem Guðmundur
predikaði yfir honum í Björnsbakaríi: „List er að setja eitthvað þannig
fram að aðrir verði varir við það sem listamanninum bjó í brjósti.“13
Ef marka má sögn Guðmundar Hagalíns virðist Jón hafa haft í kringum