Andvari - 01.01.2001, Side 7
Frá ritstjóra
Lýðrœði og hnattvœðing
Á síðustu misserum hefur nokkuð verið rætt um lýðræðið og birtingarform
þess. Forseti íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, lagði sitt til þeirrar umræðu
þegar hann tók við embætti í annað sinn 1. ágúst 2000. Forsetinn sagði þar
meðal annars:
Sú stjómskipan sem aðeins veitir almenningi aðgang að ákvörðunum með kosning-
um á nokkurra ára fresti og bindur formlega ráðgjöf við stofnanir flokka og faglegra
samtaka er í reynd aðeins rammi frá liðinni tíð. Við eigum núna möguleika á endur-
reisn hins raunvirka lýðræðis, veruleika þar sem fólkið sjálft fer með valdið. Hinn
gamli rammi villir þó áfram mörgum sýn sem telja að forystan hljóti jafnan að vera
í fárra höndum.
Það var hressileg nýbreytni að forseti lýðveldisins skyldi ræða grundvallar-
atriði stjómskipunar með slíkum hætti. Viðbrögðin við ræðu hans voru raun-
ar með ýmsum hætti. Nokkrir alþingismenn, þar á meðal Halldór Blöndal
þingforseti, tóku orð Ólafs Ragnars Grímssonar óstinnt upp og töldu þau
óvirðingu við þingið. Slíkt er fjarri sanni; það er virðing við þingið fremur en
hitt að fjalla með málefnalegum hætti um grundvallarmál fulltrúalýðræðisins
og veikleika stjómmálaflokkanna sem mynda farveg þess, en að því efni vék
forsetinn líka. Slíka umræðu á einmitt að efla. Það fer vel á að forseti
lýðveldisins, kosinn beinni persónulegri kosningu af þjóðinni en ekki sem
fulltrúi flokks eða hagsmunasamtaka, láti þar til sín taka.
í ræðu Ólafs Ragnars var margt íhugunarvert og annað sem orkar tvímæl-
is, eins og ofurtrú á möguleika tækninnar sem þar kemur fram og forsetinn á
sameiginlega mörgum nú á tímum. En sú afstaða sem ýmsir þingmenn eru
gjamir að viðra, að forseta íslands beri að gæta þess að láta aldrei í ljós skoð-
un sem um megi deila, er ólýðræðisleg og í raun óvirðing bæði við forsetann
og þjóðina. Forsetinn situr ekki í skjóli þingmeirihluta og því ekkert við því
að segja þótt hann setji fram skoðanir sem fleiri eða færri þingmenn eru
ósamþykkir, - forseti og þing eru jafnréttháir þjóðkjömir aðilar. Um innsetn-
ingarræðu forsetans er annars ekki ætlunin að fjalla hér frekar, en geta má
þess að Birgir Hermannsson stjómmálafræðingur leggur út af henni í athygl-
isverðri grein sem nefnist „Nýtt lýðræði?“ í vorhefti Skírnis 2001.