Andvari - 01.01.2001, Page 9
ANDVARI
FRÁ RITSTJÓRA
7
Hvaða kenndir vekja þessi orð nú? Var það kannski aldrei nema draumsýn
að heil þjóð ætti sér skilgreind markmið sem skyldi vinna að í sameiningu,
undir samhentri forustu náttúrlega? Ekki var einatt friðsamlegt í íslenskum
stjómmálum á uppbyggingarárum fyrstu tuga tuttugustu aldar, hart tekist á
bæði um menn og málefni. En á þeim árum var byggt upp nútímaþjóðfélag
á Islandi. Nýjar atvinnugreinar efldust, á legg risu helstu stofnanir þjóðar-
innar og riðið var það net félagslegrar samhjálpar sem hvert þjóðfélag þarf
á að halda ef það á að rísa undir nafni sem menningarsamfélag.
*
Þjóðernishyggja íslendinga þykir sérstaklega varhugaverð og haldlítil í fjöl-
menningarlegu samfélagi eins og við erum að kynnast dálítið síðustu ár
þegar innflytjendum úr fjarlægum löndum fjölgar í landinu. Það felur í sér
margs konar félags- og menningarlega áraun fyrir þjóðfélög Vesturlanda, og
því meiri sem þau eru fámennari. Við henni verðum við að bregðast. En
hvemig getur þjóðfélagið best lagað sig að hinni breyttu heimsmynd?
Sú víðtæka miðstýring efnahagslífsins sem kommúnistaríkin byggðu á
beið skipbrot sem alkunnugt er. Frelsi markaðarins varð kjörorðið, samhliða
því að trú á ríkisrekstur beið hnekki en trú á einkavæðingu sem hið æskileg-
asta rekstrarform efldist til muna. Ekki er vafi á að einkarekstur er oft mun
skilvirkari og hagkvæmari í atvinnulífinu en opinber rekstur; það er gömul og
ný saga að menn fara að jafnaði betur með eigið fé en það sem þeim er trúað
fyrir úr sameiginlegum sjóðum.
En þetta lögmál gildir ekki alls staðar. Það verður fráleitt þegar kemur að
mikilvægum samfélagsstofnunum sem reknar eru fyrir alla landsmenn og
mynda undirstöðu eða bindiefni í menningarlífi þjóðarinnar. Þar er einkum
átt við almenningsskóla og útvarp allra landsmanna, Ríkisútvarpið. Um þá
stofnun hefur löngum verið allgóð sátt, menn hafa verið á einu máli um að
miklu skiptir að þjóðin eigi slíkan fjölmiðil í almenningsþjónustu sem hún
getur jafnan treyst og ekki er rekinn með hagnaðarvonir að leiðarljósi. Nú er
uppi ágreiningur um rekstrarform Ríkisútvarpsins sem hefur staðið viðgangi
þess fyrir þrifum á síðustu árum og sett rekstur þess í úlfakreppu. Mál er að
þeirri óvissu linni.
*
Hnattvæðingin sem einkennist af flæði upplýsinga, fjármagns og vinnuafls
yfir landamæri ríkja, er sú nýja heimsmynd sem við blasir. Sjálfsagt að
skoða opnum huga jafnt kosti hennar sem galla, þá möguleika sem hún
býður og þær hættur fyrir þjóðir og þjóðfélagshópa sem í henni felast. Allt
er þetta mjög rætt nú á tímum. Ástæða er til að geta þess í því samhengi að
árið 2000 gáfu Bjartur og ReykjavrkurAkademían út dálítið kver, Framtíð