Uppeldi og menntun - 01.01.1999, Síða 31
GUNNAR J. GUNNARSSON
ekki fjallað frekar um hlut heimilanna og þá sérstaklega feðra í trúarlegu uppeldi. Ekki
verður heldur vikið að stöðu og hlut kirkjunnar hvað strákana varðar en sú mynd sem
við blasir hlýtur að vera kirkjunni umhugsunarefni. í staðinn skal vikið að tveim atrið-
um sem snerta skólann og kennslu í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum.
Aðkoman að kristinfræðináminu
í fyrsta lagi má spyrja hvort sá munur sem er á kynjunum varðandi trúarlega afstöðu og
iðkun feli í sér að aðkoma þeirra að kristinfræðináminu í skólunum kunni að vera mis-
munandi og staðfesti síðan muninn milli þeirra enn frekar. í því sambandi má vísa til
áðumefndrar rannsóknar Munkgaards. Hann bendir á að meginmunurinn á bömunum í
hópunum þrem felist ekki í vitsmunalegum skilningi þeirra heldur fremur í skilningi
þeirra á því hvað trú er og hvaða gildi hún hefur fyrir einstaklinginn, m.a. vegna þess að
misjafnt er hve mikið bömin geta skírskotað til hins trúarlega í umhverfi sínu. Það hefur
síðan áhrif á hvemig bamið túlkar og skilur kristindómsfræðsluna í skólanum (Munks-
gaard 1980:119 o.áfr.). í þessu ljósi má spyrja hvort munurinn á strákum og stelpum sé það
mikill í trúarlegu tilliti að strákamir skilji kristindómsfræðsluna öðmvísi en stelpumar og
eigi jafnvel erfiðara með að tileinka sér hana þar sem hið trúarlega er ekki jafneðlilegur
þáttur í þeirra veruleika og stelpnanna. Er það jafnvel svo að það þurfi að nálgast fræðslu á
þessu sviði öðruvísi með strákum en stelpum? Af samtali við Halldór Elías Guðmundsson
framkvæmdastjóra Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum, má
draga þá ályktun því hann taldi einmitt verulegan mun á forsendum stráka og stelpna í
fermingarfræðslu í Hjallakirkju þar sem tilraun var gerð með kynskipta fræðslu.
Munksgaard fjallar á grundvelli rannsóknar sinnar um kristindómsfræðsluna og m.a.
hvaða afleiðingar það hefur að skilningur á trúarlegu efni er samofinn reynslu af því sem
merkingarbærum þætti í daglegu lífi og umhverfi. Einnig bendir hann á að gagn nem-
enda af kennslunni virðist mjög háð tilfinningalegri reynslu þeirra af henni. Ljóst er að
kennsluaðferðir hljóta að hafa mikil áhrif. Munksgaard heldur því fram að í kennslunni
þurfi bæði að taka tillit til mismunandi forsendna nemendanna í hópunum þrem varð-
andi hið trúarlega og einnig að gefa möguleika á innlifun og samsömun við efnið. Kristin-
dómurinn er ekki bara kenning sem hægt er að tileinka sér sem vitsmunalega þekkingu
heldur er hann einnig lifandi veruleiki í samfélaginu og lífi fólks. Því þurfi bæði að taka
tillit til efnisins sem ætlunin er að miðla en einnig nemendanna, bæði vitsmunalegra,
félagslegra og tilfinningalegra forsendna þeirra. Munksgaard nefnir sérstaklega tvennt í
því sambandi. Annars vegar frásagnaraðferðina þar sem hún býður upp á innlifun og
samsömun, sérstaklega ef hún er tengd reynsluheimi og tilfinningum nemendanna, og
hins vegar samtalsaðferð þannig að nemendur og kennari ræða saman um efnið. Þannig
fær efnið umfjöllun frá mörgum sjónarhomum, hægt er að ganga út frá tilvistarspuming-
um nemenda, höfða til reynslu þeirra, viðhorfa og tilfinninga, og þeir öðlast þar af leið-
andi betri skilning á efninu (Munksgaard 1980:119-149)." Þessi sjónarmið eiga erindi hér á
landi meðal annars í ljósi þess munar sem er á stelpum og strákum í trúarlegu tilliti.
Nefna má að Norðmaðurinn Sverre D. Mogstad (1997:107-137 og 147-150) talar m.a um gildi frásagnaraðferð-
arinnar í kristinfræðikennslunni. Hann talar einnig um reynslumiðaða kristinfræðikennslu þar sem leitast er
við að nota reynsluna fyrr og nú sem tengilið milli biblíusögunnar og nemandans.
29