Uppeldi og menntun - 01.01.1999, Qupperneq 39
JÓHANNA EINARSDÓTTIR
nokkrar mismunandi íhlutunaraðferðir: þátttaka, tilsögn eða kennsla, hrós, samtöl,
breytingar á ferli leiksins, breytingar á umhverfi og stuðningur. Shin (1989)
rannsakaði tengslin milli leikíhlutunar og leiks barna og notaði til þess flokkun
Spidells en bætti við sýnikennslu og skipunum. Niðurstaðan var að kennarar not-
uðu mismunandi leikíhlutun við mismunandi aðstæður. I Englandi rannsökuðu
þau Wood, McMahon og Cranstoun (1980) 24 leikskólakennara. Þau fundu fjórar
mismunandi aðferðir sem kennararnir notuðu þegar þeir léku sér með börnunum:
Samhliða leikur, leikfélagar, leikkennarar og talsmenn veruleikans.
Roskos og Newman (1993) rannsökuðu hvernig fullorðnir örva og ýta undir
ritmálsþroska þegar börn eru í leik. Þær skilgreindu hlutverk hins fullorðna á
þrennan hátt, sem áhorfanda, leikara og leiðtoga. Sem áhorfandi var hinn fullorðni í
hlutverki hins þakkláta viðtakanda. Leikarinn var hins vegar virkur þátttakandi í
leiknum. Sem leiðtogi skipulagði hinn fullorðni markvisst leikinn á svipaðan hátt
og leikþjálfun. Roskos og Newman fundu að kennarar fóru í ýmis hlutverk og
fluttu sig oft úr einu hlutverki í annað, en kusu samt eitt hlutverk frekar en annað. í
rannsókn á samskiptum fullorðinna við börn í leik fundu Christie og Enz (1997) sex
aðferðir sem hægt er að setja á ás, frá þátttökuleysi til algerrar íhlutunar. Aðferðirn-
ar voru: afskiptaleysi, viðtal, sviðsstjórn, þátttaka sem leikfélagi, forysta leiksins og
stjórnandi. Það kom í ljós að aðferðirnar í miðjunni, sviðsstjóri, leikfélagi og leið-
andi leiksins, voru áhrifamestar við að örva hlutverkaleik. Niðurstöðurnar gáfu
einnig til kynna að menntun og reynsla voru mikilvægir þættir varðandi hæfileika
kennarans til að velja og nota leikaðferðir á árangursríkan hátt.
Af framansögðu má sjá að talsvert er til af rannsóknum á hlutverki starfsfólks
leikskóla í leik barna og mismunandi þátttökuaðferðum. Rannsóknir þessar endur-
spegla gildismat, hugmyndafræði og grundvallarviðhorf kennara. Niðurstöður
rannsóknanna leiða hugann að því hvort hlutverk starfsfólks leikskóla sé breytilegt
eftir menningarsamfélögum. í því sambandi þótti athyglisvert að skoða hvernig
þessum málum væri háttað hér á landi þar sem leikur er talimi aðalinntak leik-
skólastarfsins (Aöalnámskrá leikskóla 1999). Niðurstöður rannsóknarinnar ættu því að
varpa ljósi á hegðun og hugmyndafræði starfsfólks íslenskra leikskóla og gefa tæki-
færi til samanburðar við rannsóknir í öðrum löndum.
Rannsóknin fór fram í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu á vormisseri 1997 og
tók til hlutverkaleiks sem börnin léku sér í á hlutverkaleiksvæðum. Hlutverkaleik-
urinn var skilgreindur sem félagslegur leikur þar sem börnin leika sér saman tvö
eða fleiri á hlutverkaleiksvæðinu.
Tilgangurinn með rannsókninni var tvíþættur:
Annars vegar að fá vitneskju um hlutverk fullorðinna í hlutverkaleik barna í
íslenskum leikskólum og skoða hvernig starfsfólk leikskóla hefur afskipti af leikn-
um. Þrjátíu þátttakendur í þrjátíu leikskólum sem valdir voru með handahófsúrtaki
voru athugaðir.
Hins vegar að fá skoðun og viðhorf starfsfólks leikskóla til leiksins og hug-
myndir þess um hlutverk fullorðinna í hlutverkaleik barna. Spurningalistar voru
lagðir fyrir í leikskólum til að kanna hugmyndir og viðhorf starfsfólksins, aðstæður
til leikja og hugmyndir þeirra um hlutverk fullorðinna í leiknum.
37