Hugur - 01.01.1994, Page 13
HUGUR
Inngangur ritstjóra
11
hversu ólíklegt það er að við getum náð að halda deilum manna á
sanngjörnum grundvelli; við verðum að vera undir það búin að
sjónarmið manna séu ósættanleg og hvorugur deiluaðila hviki. Þá
kemur aðferðafræði í anda Rawls til skjalanna: Okkur ber að forðast
að flækjast í djúpstæðar deilur um frumspeki, grundvöll mannlegra
gæða eða hvernig skynsamlegast sé að skipa gæðum í forgangsröð.
Þess í stað eigum við að einbeita okkur að lausn á „hagnýtari“ vanda-
málum og hversdagslegri sem falla undir okkar svið, svo sem þvf að
rannsaka og réttlæta eða hrekja tiltekið skipulag á stofnunum, lögum,
reglum og öðrum fyrirmælum og aðstæðum sem stjórna samfélagi
okkar mannanna. Þetta eigum við að gera, segir Wayne, ef við viljum
komast eitthvað áfram og koma einhverju í verk. Þetta er auðvitað
bæði satt og rétt hjá Wayne en þó ekki nema hálfur sannleikurinn. Við
getum ekki stungið höfðinu í sandinn gagnvart þeim deilum sem
snúast um þessi svokölluðu grundvallaratriði sem að sönnu eru hál
viðfangs. Það er ekki alveg laust við að sá grunur læðist að manni að
Wayne hafi tilheigingu til að gera sjálfur það sama og hann finnur að
hjá Rawls; sem sé að skilgreina andstæðinginn út af borðinu, og
afgreiða mótbárur hans sem ósanngjarnar. Óbilgjörn sanngirniskrafa
hlýtur alltaf að virka einstrengingsleg og ósanngjörn á þann sem fellst
ekki á forsendur þess að eitt sé talið sanngjarnt og annað ekki.
Þó að hlutverk hins hógværa vélvirkja stjórnmálahugsunarinnar sé
að mínum dómi afar mikilvægt, þá tel ég að stjórnmálaheimspekingar
geti ekki látið djúpstæð ágreiningsmál afskiptalaus. í raun eru kannski
fá ágreiningsmál dýpri en einmitt merkustu stjórnspekikenningarnar
sjálfar og þau álitamál sem þar er fengist við, eins og hvort hafi
forgang frelsi eða jöfnuður, eða þá hvort leggja beri til grundvallar
siðferðilegu mati, réttlæti ákvarðanatökuferils eitt og sér eða hvort
nægi að spyrja að leikslokum.
Verkefni stjórnmálaheimspeki samtímans er því af tvennum toga ef
þessi skoðun mín stenst: frumspeki og félagsleg verkfræði —
heimspeki og hagnýting hennar. Þetta tel ég að megi sjá í öllu efni
þessa heftis ef grannt er skoðað. Tvíeðli stjórnmálaheimspekinnar þarf
að vera okkur iðkendum hennar ljóst og leiðarljós í átökum við þau
fjölmögu verkefni sem bíða umfjöllunar og úrlausnar.