Hugur - 01.01.1994, Page 14
HUGUR 6. ÁR, 1993-1994
s. 12-34
Wayne J. Norman
Aðferðafræði í anda Rawls*
Hvernig getum við útskýrt hin miklu áhrif Johns Rawls á stjórn-
málaheimspeki í hinum enskumælandi heimi þrátt fyrir að varla
finnist nokkur heimspekingur sem kalla mætti „Rawlssinna“? Að
hluta til er skýringin sú að síðan Kenning um réttlæti kom út árið
1971* hafa þeir sem víkja frá meginhugmyndum Rawls sætt sig
möglunarlaust við þá kvöð að sönnunarbyrðin hvíli á þeirra herð-
um. Þetta á við um þá sem greinir á við Rawls, til dæmis um eðli
sáttmálakenninga, upphafsstöðuna, hugmyndir Kants um
siðgæðisvitund manna, réttlætislögmálin tvö, forgang frelsisins,
eða jafnvel um hagnýtari hluti eins og borgaralega óhlýðni, skyldur
okkar við óbornar kynslóðir eða borgaralega menntun í
samfélögum þar sem trúmál skipta miklu. Ég hygg að sanngjarnt sé
að segja að þessi áhrif Rawls fari nú þverrandi. En Rawls hefur
haft önnur og dýpri áhrif, sem eru jákvæðari og varanlegri en eru
sjaldan rædd og naumast veitt eftirtekt.
Ég tel að Rawls beri nefnilega að stórum hluta ábyrgð á að hafa
breytt því hvernig við stundum stjórnmálaheimspeki. Þannig að
þrátt fyrir að tiltölulega fáir okkar komist að nákvæmlega sömu
niðurstöðum og Rawls, þá er aðferðafræðilegt viðhorf okkar —
viðhorf sem felur í sér hugmyndir um viðfangsefni, forsendur,
samhengi og verklagsreglur stjórnmálaheimspeki — á þann veg að
margir okkar eru nú yfirlýstir „aðferðafræðilegir Rawlssinnar,“
þ.e. við styðjumst við aðferðafræði sem er í anda Rawls.
* [„Methodological Rawlsianism" er fyrirlestur sem Wayne Norman flutti við
heimspekideild Louvain háskóla vorið 1993. Við þýðingu hans naut ég góðs af
yfirlestri og ábendingum Ólafs Páls Jónssonar. — Þýð.]
1 A Theory of Justice (Oxford: Oxford University Press, 1971). [ Kenmng um
réttlœti er, eins og mörgum mun kunnugt, höfuðrit Rawls og er gjarna talið
eitt áhrifamesta rit í stjórnmálaheimspeki á þcssari öld. Þýðingin á bókar-
heitinu, ásamt nokkrum hugtökum úr kenningum Rawls, er fengin frá Þorsteini
Gylfasyni úr grein hans „Hvað er réttlæti", Skírnir, 158. ár (1984), en í þeirri
löngu grein er að finna, auk réttlætiskenninga Þorsteins sjálfs og Roberts
Nozick og raunar fleiri, stutt en gagnlegt ágrip af kenningum Rawls. — Þýð.]