Hugur - 01.01.1994, Side 78
76
Þorsteinn Gylfason
HUGUR
fyrirtæki — sé þessi siðfræði skelfíng óraunhæf. Því hver hefur tóm til
þess, og vit og þekkingu, þegar að því kemur að taka alvarlega
ákvörðun, að reikna út allar afleiðingar hinna ólíku kosta og velja
síðan þann sem mest ánægja er að á alla kanta? En ég vildi, eins og
prófessor Bernard Williams,19 mega ganga mun lengra en þessir
andmælendur og halda þvf fram að athafnasiðfræðin sé sjálfri sér
ósamkvæm: á endanum sé hún helber hugsunarvilla.
Ástæðan til þessa er ofureinföld. Nytjastefnumaður hlýtur ævinlega
að telja rétt að velja skásta kostinn af mörgum illum eða jafnvel
andstyggilegum sem hann telur nauðsynlegan til að koma í veg fyrir
hið versta sem annars gerðist við gefnar aðstæður, til að mynda
einhvern ennþá viðurstyggilegri verknað sem annar er líklegur til að
gerast sekur um. Ég þarf ekki að nefna mörg dæmi þessa viðhorfs úr
stjórnmálum samtímans. Ráðherrar sitja í ríkisstjórn og trúa því, segja
þeir, að setuliðið á Miðnesheiði sé ægilegasta ógæfa sem yfir þessa
þjóð hefur dunið. En herliðið situr sem fastast og hreiðrar um sig, og
hatursmenn þess í stjórnarráðinu þiggja af því greiða. Þeir réttlæta
sjálfa sig með því að „eining vinstrihreyfingar" eða hvað það heitir
hafi verið í voða, eða þá einhverjum andskotanum öðrum.
I fæstum orðum er eitt frumhugtak allrar nytjasiðfræði hugmyndin
um varnarleiki — „fyrirbyggjandi ráðstafanir,“ eins og stjórnmála-
mönnum þætti ugglaust fegurra mál. Og eins er það auðvitað innbyggt
í þessa siðfræði að menn beri jafna ábyrgð á því sem þeir gera og hinu
sem þeir láta vera. Af þessu tvennu leiðir að líkur eru til að
varnarleikir verði æ tíðari í mannfélaginu, því aðrir eiga sama rétt og
ég á viðurstyggilegum varnarleikjum gegn varnarleikjum mínum gegn
verkum þeirra. Og hér er það sem ósamkvæmnin kemur til sögunnar: í
þjóðfélagi sífjölgandi varnarleikja var verr af stað farið en heima
setið, líka frá beinhörðu nytjasjónarmiði.
Ef við viljum setja varnarleikjum nytjastefnumannanna einhver
mörk, þá hljótum við að æskja þess að nógu margir geri nógu mikið af
því að fylgja samvizku sinni og sannfæringu, skeyta í engu um
afleiðingarnar og segja ósköp einfaldlega: „Hér stend ég og get ekki
19 Bernard Williams, Morality: An lntroduction to Ethics (Harmondsworth:
Penguin, 1972), s. 110-111. Sbr. ennfremur bók þeirra Williams og J.J.C.
Smart, Utilitarianism: For and Against (Cambridge: Cambridge
University Press, 1973).