Hugur - 01.01.1994, Page 82
80
Þorsteinn Gylfason
HUGUR
x hafi (hefði) gerzt (eða ekki gerzt)“. Ég get sagt „Ég vildi að x hefði
ekki gerzt“, en það er auðvitað önnur saga. Ég get ekki viljað neitl
liðið, fremur en ég get iðrazt þess sem ég á eftir að segja hér í dag eða
hlakkað til kvöldsins í fyrrakvöld. Svo hér er augljós munur á vilja og
löngun.
VII
Vilji og vald
Skyldi ég nú geta viljað að Vilhjálmi snúist hugur á þeim stutta
tíma sem hann hefur til að hugsa áður en hann keyrir suður eftir? Ef
ég segði „Mikið vildi ég hann sæi að sér!“ léti ég ósk eða löngun í
ljósi, og orð mín væru óaðfinnanleg. En ef ég segði „Ég vil ekki að
hann leggi þetta fyrir forsetann" þá væri ég, svo að enn sé nolað
orðalag Aristótelesar, réttilega talinn fáráðlingur. Þetta gildir hins
vegar ekki um suma aðra: forsetinn, forsætisráðherrann, þingflokkar
stjórnarflokkanna geta allir haft vilja í þessu máli. Ef þeir menn eru
fáráðlingar þá eru þeir ekki sömu fáráðlingarnir og ég væri. Og þessi
hugsun gefur tilgátu undir fótinn: vilji krefst valds.
Hugsum okkur íþróttamann. Hann er vinur minn, og ég óska
einskis frekar en hann skori mark í landsleik í handbolta. En get ég
viljað að hann skori? Segjum að eftir landsleikinn sé ágreiningur um
hvort þessi vinur minn hefði átt að skjóta úr færi eða gefa boltann; og
eftir leikinn vildu sumir eitt og aðrir annað: að það hefði gerzt. Þeir
vildu í viðtengingarhætti. En hverjir gætu sagt í framsöguhœtti „Ég
vildi (alls ekki) að hann skyti (gæfi)“? Nú, til dæmis fyrirliðinn, eða
þjálfarinn sem situr utan Iínunnar og ygglir sig eða kinkar kolli eftir
atvikum. Og kannski vinurinn á pöllunum geti líka sagt „Ég vildi alls
ekki að hann gæfi boltann; ég æpti lika lil hans og svo vorum við
einmitt að tala um þetta í gærkvöldi". Þessi vinur er þá ámælisverður
fyrir þeim sem óskuðu annars.
Við virðumst geta sagt: allur vilji snýst um það sem er á okkar
valdi. Hins vegar getur okkur langað til þess sem við ráðum engu um;
eins og Aristóteles segir getum við jafnvel óskað þess sem er öldungis
óhugsandi, til að mynda ódauðleika.22
22 Aristóteles, Ethica Nicomachea, III, 1111 ^22-23.