Morgunn - 01.06.1935, Page 90
84
MORGUNN
Valiantine og Poincaré.
Ameríski miðillinn Valiantine var fyrir skömmu feng-
inn til Parísar til þess að halda sambandsfundi þar. Frá
einum af þessum fundum hefir fréttaritari Vínarblaðs eins
skýrt í blaði sinu.
Lúður lá á borðinu, svo langt frá miðlinum, að hann
gat ekki til hans náð. Skuggsýnt var í herberginu, en rautt
ljós þó. Þegar Valiantine var kominn í sambandsástand,
lyftist lúðurinn upp af borðinu og sveif í loftinu um sex
fet fyrir ofan borðið. Á lúðurinn hafði verið sett lýsandi
efni, áður en fundurinn byrjaði, svo að allir fundarmenn
gátu vel séð, hvar hann var.
Nú varð um tuttugu mínútna bið. Þá fóru að heyrast
raddir, sem mynduðust inni i lúðrinum. Allir fundarmenn
voru ávarpaðir, og þeir könnuðust við, að þeir þektu
raddirnar; þær kæmu frá framliðnum skyldmennum þeirra.
Útbúnaður hafði verið settur upp í stofunni til þess að
ná röddunum á grammófónplötur.
Þegar fór að líða að fundarlokum, kom rödd í lúður-
inn, sem talaði frönsku. Ósýnilegi gesturinn kvaðst vera
hinn framliðni franski stjórnmálamaður Poincaré. Hann
spáði því, að nokkur næstu árin þyrftu hvorki Frakkar né
Englendingar að kvíða ófriði.
Grammófónplata þessarar raddar var siðar afhent
plötusafni franska rikisins í París. Þar er fjöldi af grammó-
fónplötum, sem geyma rödd Poincaré’s. Þessi nýja plata
var rannsökuð einkar vandlega. Hún var borin saman við
plötur safnsins, sem geymdu rödd Poincarés úr lifanda lífi.
Árangur þess samanburðar þótti mjög furðulegur, þvi að
menn komust að raun um, að röddin í lúðrinum var nauða-
lík rödd Poincarés. Menn hlustuðu á eitthvað átta plötur
með rödd hans, og því næst tafarlaust á nýju plötuna, og
gátu engan mun fundið á röddinni.
Forstjórar safnsins hafa afhent Valiantine vottorð um
það, að röddin á þessari plötu, sem undir þá hafi verið
borin, sé merkilega lík rödd Poincarés.