Saga - 1964, Page 14
6
BJÖRN ÞORSTEINSSON
veiðistöð. Elztu samtímaheimildina um fiskveiðarnar í
Vogum er að finna í Frostaþingslögum (Ngl. I, 257), en
þar segir, að allir, sem eru að fiski í Vogum, skuli greiða
konungi fimm fiska. Þetta ákvæði á að vera frá því um
1115 eða því árabili, þegar fyrsta kirkjan er reist þar norð-
ur frá. Sama heimild gefur til kynna, að konungar hafi
tekið toll af fiskveiðum Háleygja allt frá því um 1080
(Sbr. Ólafs sögu helga, 239. kafli, Heimskringla; Ágrip,
29. kap.; Ræstad, 39—40). Vogastefnan var kaupstefna
fyrir allt Hálogaland, en á 12. öld eflast mjög fiskveiðar
Norðmanna og þar með utanríkisverzlun þeirra. Samt sem
áður óx ekki upp í landinu sjálfstæð stétt verzlunarmanna.
Það voru stórhöfðingjar með konung og erkibiskup í
broddi fylkingar, sem stunduðu einkum utanríkisverzlun-
ina, sendu það, sem þeir máttu missa af tekj um sínum, sem
þeir fengu einkum greiddar í fríðu, aðallega til Englands
og skiptu þeim þar fyrir veizlukost, skrúðklæði, vopn og
annað, sem höfðingjum sómdi. Til slíkra verzlunarferða
nægði hin gamla gerð víkingaaldarskipa, en annað varð
uppi á teningnum, þegar svo var komið, að Norðmenn
þörfnuðust allmikils innflutnings til þess að brauðfæða
þjóðina, borgir höfðu vaxið og fólki fjölgað þar eins og
annars staðar á Vesturlöndum.
Þótt ýmsar heimildir bendi til þess, að Norðmenn hafi
flutt út skreið allt frá því á 10. öld, þá mun ekki hafa
kveðið mikið að þeim útflutningi fyrr en á þeirri 12., og
það eru ekki norskir, heldur erlendir kaupmenn, sem talið
er, að hafi valdið mestu um þær breytingar. Þá verður
skreiðin aðalútflutningsvara Norðmanna og Björgvin að-
alútflutningshöfnin, en hún liggur vel við siglingum
frá Vesturlöndum, og þangað flykktust erlendir kaup-
menn á skipum sínum. Um 1130 telur enski sagnarit-
arinn Orderic Vitalis (d. 1142) Björgvin meðal 5 helztu
borganna í Noregi (Historia Ecclesiastica). Þar efldust
brátt margs konar handíðir, en þær voru m. a. grundvöllur
talsverðrar smáverzlunar.