Saga - 1964, Síða 76
68
HERMANN PÁLSSON
ur Magnús, drottinn sömu kirkju, píndist fyrir ekki og
varð eigi til engis Kristi píslarvottur. Nú er þeir komu með
þenna mann í kirkjuna, varð hann svo ólmur 1 æði, að
hann féll sem dauður niður í höndum þeim, og þau bein,
sem áður voru sterk um eðli fram, urðu nú blaut og breysk-
leg móti allri náttúru. Lofaði hann þá lifandi guð, jung-
frú Maríu og Magnús kirkjudrottin. Þeir voru, sem svo
töluðu hégómlega um þetta og sögðu orðið hafa af sterkri
drykkju og það hefði valdið æði hans. En til prófunar, að
illa er satt, vitjaði þetta mein hans eftir það hann kom í
Noreg á fund herra Eiríks konungs. Voru og þeir menn, er
það sönnuðu, að þá er hann tók að ásaka sinn herra fyrir
Eiríki konungi, sótti hann hin sama meinsemd. Geymdu
hans þá fyrst íslenzkir menn og síðan norrænir. Var þá
ger bakstur nokkur sérlegur og bundinn við höfuð honum,
en það dugði eigi. Andaðist hann í þessi hörmung."
Svo lauk ævi síra Þorvalds.
11. Þótt myndin af þeim bræðrum, Þorvaldi og Aðal-
brandi Helgasonum, sé engan veginn skýr, þá er lýsingin á
athöfnum Þorvalds í Árna sögu hin merkilegasta. Vafa-
laust hefur höfundur sögunnar fremur hallað á Þorvald
í frásögninni, enda var Þorvaldur ekki einungis ósvífinn
í fjármálum, heldur beinlínis uppreistarmaður gegn kirkj-
unni. En höfundur Árna sögu fer þó viðurkenningarorð-
um um Þorvald, sakir „framkvæmda hans og mikilla
mennta“, og þáttur Þorvalds í átökum höfðingja og bisk-
ups um staðamál sýnir ótvírætt, að hér var á ferðinni
mikilhæfur maður. Skapgerð Þorvalds hefur ekki verið
alls kostar heil. Hann nær hinni verðmætu tönn af vest-
firzkum bónda með klókskap, kinokar sér ekki við að
sættast við andstæðing yfirmanns síns, en reynir að kom-
ast aftur í mjúkinn hjá biskupi og neitar þó að hlýðnast
honum. Og skuldamál hans eru öll furðanlega reiðulaus,
og við það bætist svo frjálslyndi hans í kvennamálum.