Saga - 1964, Qupperneq 144
136
SIGFÚS HAUKUR ANDRÉSSON
sýslunnar hafi uppgefizt á að skipta við hann og leitað
til Eyjafjarðarkaupstaðar [Akureyrar]. Fyrir norður-
sveitir sýslunnar hafi það orðið til mikilla bóta á fyrstu
verzlunarárum Hansteens, að hann lét skútu sína sigla til
Raufarhafnar með vörur og taka þar við útflutningsvör-
um, auk þess sem nokkrir lausakaupmenn hafi þá stund-
um komið þangað, en brátt hafi Hansteen neyðzt til að
selja skútuna og siglingar til Raufarhafnar lagzt niður.
Að dómi sýslumanns kastaði þó tólfunum, eftir að Han-
steen missti skip sitt haustið 1792, því að árið eftir kom
skip hans ekki til Húsavíkur fyrr en 24. september. Að
vísu sendi Akureyrarkaupmaður þangað skip til lausa-
verzlunar sumarið 1793, sem seldi þar vörur í hálfan
mánuð gegn því, að bændur kæmu í staðinn með sláturfé
til Akureyrar um haustið. En hvorki þetta né hið síðbúna
skip Hansteens gat orðið norðursveitum sýslunnar að
neinu gagni, svo að ýmsum þar lá við hungurdauða vet-
urinn eftir.
Sýslumaður segir ennfremur, að ekki sé nóg með það,
að Hansteen sendi of lítið af nauðsynjavörum til Húsavík-
ur, svo að sumar vörur, til dæmis timbur, skorti þar alveg,
heldur séu þær vörur, sem koma, oft lélegar. Þá sé og sí-
felldur peningaskortur í verzluninni, og þegar bændur
biðji um nokkra skildinga til að jafna viðskiptin með, sé
þeim í staðinn boðið brennivín, tóbak og ýmis annar ó-
þarfavarningur. Sökum skorts á skipsrými, tunnum og
salti hafi Hansteen oft ekki getað tekið við því sláturfé,
sem bændur hafi komið með til Húsavíkur, svo að menn,
sem voru langt að komnir, hafi meira að segja neyðzt til
að reka það til baka og ekki haft annað upp úr erfiði sínu
en tilkostnað og tímaeyðslu. Þar við bætist svo, að fakt-
orinn á staðnum verði að annast öll verzlunarstörfin al-
einn, nema í aðalsláturtíðinni, er einn maður sé venjulega
fenginn honum til aðstoðar, svo að bændur þurfi jafnan
að bíða lengi eftir afgreiðslu, búum sínum til mikils tjóns,
og hafi þessu verið öðruvísi háttað í tíð konungsverzlun-