Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1996, Page 62
60 Eiríkur Rögnvaldsson
Þetta er venjulega notað sem rök fyrir því að slíkir aukafalls-
nafnliðir séu í raun frumlög. Sögnin í (19b) hagar sér eins og sögn
sem hefur verið svipt frumlagi sínu, og hefur ekki lengur neinn
nafnlið til að laga sig að; hún stendur í nafnhætti. Frumlag auka-
setningarinnar, Sveini, er hér í einhverjum skilningi komið undir
lögsögu sagnarinnar í aðalsetningunni, þótt hún breyti ekki fallinu
vegna eðlis þess.
Eins og er áður er rakið benti Helgi Bernódusson (1982) á dæmi af
þessu tagi í fornu máli; og auðvelt er að tína fleiri til. Hér eru nokkur
sýnd:
(20) a Aron kvað sig dreymt hafa að biskup legði yfir hann
skikkju sína um nóttina. (íslendinga saga, s. 276)
b Gunnar sagði sér það vera nær skapi
(Brennu-Njáls saga, s. 159)
c Ingólfur ... sagði þeim vera mál að setjast um kyrrt
(Flóamanna saga, s. 730)
d Þórður ... kvað Þorgeiri mjög missýnast
(Ljósvetninga saga, s. 1657)
e En þeir fengu ekki af Sumarliða og taldi hann sér mjög mis-
boðið í vígi Ingimundar (Guðmundar saga dýra, s. 135)
Hér er sögn aukasetningarinnar í öllum tilvikum í nafnhætti, og tekur
nafnlið í aukafalli á undan sér. E. t. v. mætti halda því fram að setning-
ar af þessu tagi séu ekki örugg vísbending um frumlagseðli aukafalls-
nafnliðanna, heldur sé hægt að fara svona með þann nafnlið aukasetn-
ingarinnar sem er mest áberandi (prominent); það sé nefnifallsfrumlag
ef það er fyrir hendi, en sé ekki um neitt slíkt að ræða geti annar liður
hagað sér á þennan hátt. Þetta er vissulega hugsanlegt; en þá má í stað-
inn spyrja hvaða ástæða sé til að halda slíkum liðum aðgreindum frá
frumlögum.
Svolítið annars eðlis eru setningarnar í (21):
(21) a Þorgils kvaðst leiðast þarvistin (Flóamanna saga, s. 750)
b Þórður kvaðst þykja tvennir kostir til
(Þorgils saga skarða, s. 620)
c Hrafn kvaðst sýnast að haldinn væri.
(Hrafns saga Sveinbjarnarsonar, s. 242)