Hugur - 01.06.2004, Síða 60
58
Chantal Mouffe
Nýmælin í lýðræðislegum stjórnmálum eru ekki að komast yfir þessa við/þeir
skiptingu - sem er ómögulegt - heldur það hvernig þau eru sett á fót á ólík-
an hátt. Mest er um vert að koma á við/þeir aðgreiningu þannig að hún
samrýmist íjölhyggjulýðræði.
Frá sjónarhóli ‘ágreiningsfjölhyggju’ er markmið lýðræðislegra stjórnmála
að formgera ‘þá’ þannig að ekki sé lengur litið á þá sem óvin sem þurfi að
uppræta, heldur andstæðing, þ.e. einhvern sem hefur hugmyndir sem við
berjumst gegn en sem hefur rétt til að verja þær, rétt sem við drögum ekki í
efa. Þetta er hin raunverulega merking frjálslynds-lýðræðislegs umburðar-
lyndis, sem felur ekki í sér að láta hugmyndir sem við stöndum gegn óátald-
ar eða að láta okkur standa á sama um þau sjónarmið sem við erum ósam-
mála, heldur að koma fram við formælendur þeirra sem lögmæta
andstæðinga. Þessi skilgreining á ‘andstæðingnum’ útrýmir samt sem áður
ekki fjandskap og hana ætti að greina frá hinni frjálslyndu hugmynd um
samkeppnisaðilann sem hún er stundum samsömuð. Andstæðingur er óvin-
ur, en lögmætur óvinur sem við eigum eitthvað sameiginlegt með vegna þess
að við deilum tryggð okkar við siðferðileg-pólitísk viðmið frjálslynds lýðræð-
is: frelsi og jafnrétti. En við erum ósammála þegar kemur að merkingu og
framkvæmd þessara viðmiða, og slíkt ósætti verður ekki leyst með rökræðum
og skynsamlegum skoðanaskiptum. Agreiningsvíddin á raunar rætur sínar í
þeirri staðreynd að engin skynsamleg lausn á deilunni er möguleg, að hinni
óupprætanlegu fjölhyggju um gildi gefinni.31 Þetta þýðir auðvitað ekki að
andstæðingar geti aldrei hætt að vera ósammála, en það sannar ekki að átök
séu úr sögunni. Að sættast á viðhorf andstæðingsins er að gangast undir rót-
tæka breytingu á pólitískri sjálfsmynd sinni. Það er frekar í ætt við eins kon-
ar trúhvörf en ferli skynsamlegrar sannfæringar (á sama hátt og Thomas
Kuhn hefur haldið því fram að hollusta við ný viðmið í vísindum séu trú-
hvörf). Málamiðlanir eru að sjálfsögðu einnig mögulegar; þær eru aðalatrið-
ið í stjórnmálum; en það ætti að líta á þær sem tímabundin hlé í viðureign
sem heldur áfram.
Þegar hugtakið ‘andstæðingur’ er kynnt til sögunnar er þörf á flóknara
fjandskaparhugtaki og skilja verður á milli tveggja birtingarmynda þess, eig-
inlegs fjandskapar (antagonism) og ágreinings (agonism). Fjandskapur er bar-
átta á milli óvina, en átök eru barátta milli andstæðinga. Við getum því end-
urorðað vandann með því að segja að frá sjónarhóli ‘ágreiningsfjölhyggju’ sé
markmið lýðræðislegra stjórnmála að snúa fjandskap yfir í átök. Þetta krefst
þess að við finnum hópkenndum útrás til að tjá sig í málum sem útmála ekki
mótherjann sem óvin heldur andstæðing, en um leið með nægu rými fyrir
samsömun. Einn mikilvægur greinarmunur á ‘rökræðulýðræði’ og ‘ágrein-
ingsfjölhyggju’ er að í því síðarnefnda er meginverkefni lýðræðislegra stjórn-
31 Þessi fjandscmisvídd, sem verður aldrei eytt heldur aðeins ‘tamin’ eða ‘göfguð’ með því að fá utrás’,
svo að segja, í átökum, er að mínu mati það sem greinir skilning minn á ágreiningi frá skilningi ann-
arra ‘ágreinings-kenningasmiða’ sem eru undir áhrifum frá Nietzsche eða Hönnuh Arendt, á borð við
William Connolly eða Bonnie Honig. Mér virðist sem skilningur þeirra opni möguleikann á því að
hið pólitíska geti undir vissum kringumstæðum fallið algerlega saman við hið siðferðilega, en það er
bjartsýni sem ég deili ekki.