Hugur - 01.06.2004, Side 100
98
Sigríður Þorgeirsdóttir
muni sem Nietzsche leitast við að sigrast á með fyllri og heilli hugmynd um
vitsmuni sem sameina þætti sem hafa verið eignaðir báðum kynjum. Hann
vill að hin „minni skynsemi" mannshugans geti orðið að hinni „miklu skyn-
semi“ líkamans.26 Hinn díonýsíski heimspekingur framtíðarinnar á að verða
maður þessarar miklu skynsemi. Vitsmunir hans eiga í senn að vera karlleg-
ir og kvenlegir. Nietzsche er ekki umhugað um að konur verði heilli á sama
hátt. Hann hafði satt að segja lítinn áhuga á raunverulegum konum. Athygli
hans beindist fyrst og fremst að eiginleikum sem konum hafa verið eignaðir
í gegnum tíðina.
I hugmyndinni um víða heimspekilega vitsmuni koma saman list og heim-
speki, hið holdlega eðli og rökhugsun. (List er hér skilin í víðri merkingu
sem geta mannsins til að vera skapandi og frumlegur, og ekki í þrengri merk-
ingu þess að skapa listaverk.) Af þessu sést að togstreitan milli rökhyggju og
fagur- eða listhyggju (sem Habermas leggur að jöfnu við andskynsemis-
hyggju) er staðsett í persónu hins díonýsíska lista-heimspekings.
Ástæðan fyrir því að Nietzsche telur að bæta verði við heimspekilega hugs-
un listrænum þáttum er að hann segist hafa komist að raun um takmarkan-
ir hins heimspekilega vilja til að leita og finna sannleika. I síðheimspeki sinni
kemst hann að þeirri niðurstöðu að hinn heimspekilegi „vilji til sannleika"
(„Wille zur Wahrheit“) sem er drifkraftur heimspekinga byggi á tómhyggju
vegna þess að ekki sé hægt að finna sannleikann. I upphafsorðum Handan
góðs og ills gerir hann þess vegna grín að heimspekingum sem hafa verið
reknir áfram af sannleiksviljanum. Hann lýsir sannleikanum sem konu sem
láti ekki klaufalega heimspekinga sem eru á höttunum eftir henni klófesta
sig. Hann er þeirrar skoðunar að sannleiksviljinn sé drifinn áfram af plat-
onskri þrá eftir grunni sannleikans. Þessi þrá er tómhyggjukennd vegna þess
að það sé ekki til bjargfastur grunnur sannleika eins og t.d. frummyndaheim-
ur platonsku heimspekinnar á að vera. Verk heimspekinga felst því í því að
skapa fremur en að finna æðsta sannleika eða hinstu rök. Af þeim sökum
kemst hann að þeirri niðurstöðu að „listin sé meira virði en sannleikurinn.“27
Víkjum nú að Derrida. I túlkun hans á myndhverfingu konunnar sem
ekki-sannleika sannleika gerir hann ekki mikið úr sérlega markverðri konu í
hópi kventákngervinga sannleika í heimspeki Nietzsches. I formála að Hin-
um kátu vísindum (sem var skrifaður sama ár og Handan góðs og ills kom út)
birtist persóna úr forngrískri goðafræði, Baubo að nafni.28 Samkvæmt minni
túlkun kemur togstreitan sem einkennir afstöðu Nietzsches til sannleika
hvað greinilegast fram í Baubo. I henni koma saman í senn hin díonýsíska
26 Friedrich Nietzsche, Svo mælti Zarapústra, „Um smánara h'kamans", í þýðingu Jóns Árna Jónssonar,
Háskólaútgáfan, 1996, 60.
27 Friedrich Nietzsche, Eftirlátin skrif KSA 13, 522.
28 Andstætt Derrida gerir Kofman Baubo hátt undir höfði í túlkun sinni. „Baubo" grefur undan sann-
leika sem blæti samkvæmt túlkun hennar, en hún greinir gagnrýni Nietzsches á bjarghyggjukenning-
ar um sannleika með hliðsjón af kenningu Freuds um sannleika og blekkingu sem er að finna í rit-
gerð hans um blæti. Sjá Sigmund Freud, „Fethisismus", Freud-Studienausgabe} III. bindi, Frankfurt
am Main: Fischer, 1972, 9-22. Þessi túlkun verður ekki útlistuð nánar hér vegna þess að það krefðist
frekari umQöllunar um kenningu Freuds og beitingu hennar á sannleiksgagnrýni Nietzsches. Ekki
verður heldur gerð grein fyrir sálgreiningu í túlkun Derridas í Sporum.