Hugur - 01.06.2004, Page 192
190
Gudfríður Lilja Grétarsdóttir
við áttum okkur á orsökum þeirra og afleiðingum. Þannig getum við „kom-
ið því áleiðis að við verðum ekki auðveldlega fyrir barðinu á illum hrifum."44
Að því leyti sem skynsemin tryggir að við lifum í samræmi við eðli okkar,
°g gerir okkur fært að viðhalda tilvist okkar, skrifar Spinoza að „enginn einn
hlutur í náttúrunni er gagnlegri manni en maður sem lifir í samræmi við
leiðsögn skynseminnar.“45 Því að þrátt fyrir allar tilhneigingar hans til að
taka þátt í skaðlegu atferli gagnvart sjálfum sér og öðrum getur maður að-
eins raungert sjálfan sig í samfélagi við aðra. Og þar eð einstaklingseðlið
verður að miklu leyti til af samskiptum okkar við annað fólk er það velferð
okkar nauðsynlegt að samfélagsskipanin sem við lifum innan styðji við og
hvetji til skynsamlegra og uppbyggilegra félagslegra sambanda. Það er aðeins
í þessu félagslega samhengi sem maður er fær um að leita mestu hamingju
sinnar. Eins og Balibar segir um heimspeki Spinoza: „Ekkert er ólíklegra og
aumkunarverðara en maður sem stritar við að hugsa í algjörri einangrun frá
öðrum mönnum.“46
II. Hin œðstu mannlegu tengsl
Því af öllum hlutum sem standa utan míns valdsviðs er ekkert sem ég
hef meira í hávegum en að hlotnast sá heiður að bindast vinaböndum
fólki sem af einlægni elskar sannleika. Því ég trúi að af öllum hlutum
handan valds okkar sé ekkert í heiminum sem við getum elskað í ró-
semd nema slíkir menn. Þar eð sú ást er byggð á ástinni sem hver
þeirra hefur fyrir þekkingu á sannleika er jafn ómögulegt að leysa upp
ástina sem slíkir menn bera hver í annars garð og að synja sannleik-
anum móttöku þegar hann hefur á annað borð verið handleikinn.
Ennfremur er hún hið mesta og ánægjulegasta sem finna má meðal
þeirra hluta sem eru ekki í okkar valdi; þar eð ekkert nema sannleik-
ur getur sameinað óh'k sjónarmið og skapgerðir.47
í bréfinu hér að ofan sem Spinoza ritaði vini sínum - eða nánar tiltekið
manni sem hann áleit á þeim tíma vera vin sinn - snertir Spinoza á viðfangs-
efni sem var í hans huga meginatriði vináttu, hin æðri tengsl milli manna.
Vinur er afl handan valdsviðs hans, ytri hlutur sem hann hefur enga stjórn á,
en af öllum slíkum er hann áreiðanlega sá kærasti og verðmætasti. Þrátt fyr-
ir að hann hafi ekkert ákvörðunarvald yfir vini sínum getur hann elskað hann
„af rósemd“ og fundið alúðleg tengsl við hann sem „ókleift er að leysa upp“.
44 EVIPIO.
45 EIVP35.
46 Balibar, Spinoza and Politics, s. 30.
47 Bréf til Willem van Blijenburgh, nr. XIX, 5. janúar 1665, í A. Wolf (ritstj. og þýð.), The Correspond-
ence of Spinoza, London 1928, s. 146. Vegna þeirrar andúðar sem hann fann fyrir skrifaði Spinoza
ýmislegt sem hann sendi aðeins til vina sinna og þeirra sem hann gat treyst, og sumt af því sem hann
skrifaði kom ekki út fyrr en á 19. öld. Spinoza hætti hins vegar stundum lífi sínu með því að sýna op-
inberan stuðning við De Witt bræðurna og aðra sem boðuðu trúfrelsi og lýðræðislega stjórnarhætti.