Hugur - 01.06.2004, Page 223
Frelsi sem dygð ogfrjálsmannleg samfe'lagsskipan
221
menn í heimspeki og andlegu lífi tóku að gangast við því opinberlega að þeir
sæktu innblástur í rit Spinoza. Ljóst er þó að hugsun hans hafði mikil áhrif
á heimspekinga sem á eftir komu, ekki hvað síst á hugmyndir þeirra um
frelsi. Til að mynda eru frelsishugsjónir sem finna má hjá Kant og Hegel
undir augljósum áhrifum frá Spinoza.
Locke og Spinoza skrifuðu báðir bækur um stjórnmál og trúmál þar sem
þeir mæltu með trúfrelsi og lýstu stuðningi við frjálslyndustu stjórnmálaöfl
síns tíma, jafnframt því sem þeir lögðu til að þau gengju enn lengra í frjáls-
ræðisátt. Rökin sem þeir færðu fyrir auknu frelsi voru að vísu ákaflega ólík þar
sem Locke vísaði til kenningar um náttúrurétt eða siðferðilegan rétt hvers
manns á frelsi en Spinoza studdi kenningu sína einkum þeim rökum að auk-
ið frelsi hefði góðar afleiðingar og stuðlaði bæði að friði og hagsæld. Auk þess
að skrifa um stjórnmál og trúmál rituðu báðir tímamótaverk þar sem fjallað
er um frelsi undir frumspekilegu sjónarhorni og reynt að skýra í hverju það er
fólgið. Aður en ég sný mér að frelsiskenningum þessara bóka, sem eru Sið-
fræðin eftir Spinoza og Ritgerð um mannlegan skilning eftir Locke, ætla ég að
gera nokkra grein fyrir frelsishugtakinu og muninum á jákvæðu og neikvæðu
frelsi, enda vandkvæðum bundið að bera saman kenningar um jafnflókið efni
og hér er til umræðu án þess að draga fyrst upp einhvers konar yfirlitskort þar
sem hægt er að staðsetja hugmyndir og kenningar.
2. Jákvœtt frelsi og neikvætt frelsi
í frægri ritgerð sem birtist árið 1958 og kallast Tvö hugtök um frelsi (Two
Concepts of Libertyf gerir höfundurinn, Isaiah Berhn, greinarmun á því sem
hann kallar jákvætt og neikvætt frelsi. Hann segir að neikvætt frelsi sé til
umræðu þegar leitað er svara við spurningum um að hve miklu leyti menn
megi fara sínu fram án þess aðrir hindri þá en hins vegar sé rætt um jákvætt
frelsi þegar spurt er hvað valdi því að maður kjósi að gera eitt fremur en ann-
að.10 Hann segir:
Þessi „jákvæði“ skilningur á frelsishugtakinu kemur ekki fram í dags-
ljósið þegar við reynum að svara spurningunni „Llvað er mér frjálst
að gera eða vera“ heldur þegar spurt er „Hver stjórnar mér".11
í grófum dráttum er munurinn á neikvæðu og jákvæðu frelsi sá að maður
nýtur neikvæðs frelsis á einhverju sviði ef enginn hindrar hann í að fara sínu
fram eða gera það sem hann sjálfur kýs. Maður nýtur hins vegar jákvæðs
ar og þeirri miklu byltingu sem varð í andlegu lífi Evrópu á tímabilinu frá því um 1650 til 1750. Israel
rökstyður, að mínu viti með mjög sannfærandi hætti, að áhrif Spinoza á þessa hugarfarsbyltmgu séu
miklu meiri en sagnfræðingar höfðu almennt álitið.
9 Þessi ritgerð er til í íslenskri þýðingu Róberts Víðis Gunnarssonar sem birtist í Einar Logi Vignisson
og Ólafur Páll Jónsson 1994, bls. 155-168.
10 Berlin 1967, bls. 141.
11 Sama rit, bls. 148.