Hugur - 01.06.2004, Page 249
Ogforða oss frá illu...
247
lítið úr dygðum á borð við auðmýkt. Hann ruglar einfaldlega saman auðmýkt
sem sprettur af vanmetakennd og auðmýkt sem sprettur af þeirri ákvörðun
eða lífsafstöðu að hefja sig ekki upp yfir annað fólk. Það er samskonar afstaða
og þegar fólk lætur vera að hælast um af afrekum sínum, gerir ekki mikið úr
sigrum sem það hefur unnið og breytir ekki tengslum sínum við annað fólk
jafnvel þó að það hafi náð meiri árangri á ýmsum sviðum. Auðmýkt af þessu
tagi er auðvitað snar þáttur í kristnu siðferði en mig grunar að hennar megi
sjá merki í allri siðfræði nýaldar. Sú sjálfsgagmýni sem auðmýktin boðar er í
beinni andstöðu við stórmennskudrauma Kristjáns, rétt eins og hún er and-
stæð ofurmennishugmyndum Nietzsches. Það er því erfitt að fallast á þá nið-
urstöðu Kristjáns að stórmennskan sé mikilvæg dygð. Þvert á móti virðist hún
fela í sér hættur frekar en að hún opni betri skilning á því hvernig gott sið-
ferði er samsett. Sú staðhæfing Kristjáns að siðferðileg afstaða okkar eigi að
rúma þá staðreynd að sumir verðskulda minni virðingu en aðrir (105) varðar
allt annað en stórmennskuna og jafnvel ekki siðferði nema að hluta. Auðvit-
að má ég koma fram við þann sem ég ber litla virðingu fyrir í samræmi við
það og ekkert er eðlilegra en að sniðganga þann sem hefur valdið manni von-
brigðum eða svikið mann. En þetta er ekki hið sama og að mismuna öðrum
einstaklingi vegna siðferðilegra ávirðinga hans. Framkoma samstarfsmanns
míns við foreldra sína eða börn getur verið til háborinnar skammar en á það
að breyta afstöðu minni til þess hvort hann á að fá kauphækkun? Þessari
spurningu er vandsvarað — það er hægt að hugsa sér aðstæður þar sem svo
kynni að vera en þó hlýtur maður alltaf að gera greinarmun á þeirri virðingu
sem manneskja á skilda til dæmis sem fagmanneskja eða samstarfsmaður og
þeirri sem hún á skilda sem foreldri eða sonur eða dóttir.
„Hvernig á að kenna ungu fólki“ spyr Kristján „að reiðast, eða vera afbiýði-
samt á réttan hátt og innan réttra marka, án þess að um leið sé espuð upp í
því smámunasemi og fyrtni?“ (110) Hér er á ferðinni afhjúpandi spurning
sem kannski skýrir að sumu leyti afstöðu og nálgun Kristjáns til siðfræðinn-
ar. Hann telur að hlutverk siðfræðinga sé meðal annars að kenna ungu fólki
að reiðast og vera afbrýðisamt „á réttan hátfi*. Þessi kennsla siðfræðinganna
krefst þess að þeir geti boðið upp á manngildishugsjón sem sé bæði aðlað-
andi, rökrétt og í tengslum við menningu og arf (ef ég skil Kristján rétt).
Þannig er stórmennskan og fleiri dygðir úr forngrískri heimspeki í miklu
samræmi við sagnaarf Islendinga og hér er kannski komin meginréttlæting
þess í augum Kristjáns að gera svo mikið úr stórmennskunni (þó að hann
segi það reyndar ekki hreint út). En það má setja þetta í annað samhengi
líka: Varla þarf sérfræðinga til að kenna ungu fólki að reiðast og síst af öllu
ættum við að óska eftir sérfræðiaðstoð við að reiðast rétt. Hinsvegar þarfnast
hver mannseskja þess að geta hugleitt eigin tilfinningar, fundið í þeim rök-
vísina og lært að hafa áhrif á þær. Eru siðfræðingar með gildisdóma sína og
kröfu um að allt sé mælanlegt á mælikvarða sannleika og lygi, réttrar og
rangrar breytni, góðs og ills, sérlega gagnlegir í þeirri viðleitni? Ég held ekki,
síst af öllu þegar manngildishugsjónir þeirra setja þá á jafn mikið flug og
Kristján Kristjánsson í grein hans um stórmennskuna.