Nýtt Helgafell - 31.12.1959, Blaðsíða 95
Form landslagsins
- form málverksins
Undur landslagsins eiga sér margar
hliðar. Ég ætla til að mynda ekki að
ræða um þá jarðfræðilegu í þessu
stutta spjalli enda skortir mig undir-
stöðuþekkingu til að rýna í hana að nokkru gagni. Á hinn bóginn
langar mig til að minnast örlítið á formrænu hliðina, velta henni
fyrir mér stutta stund, svo að ég verði fróðari um eðli hennar frá
sjónarmiði listgrúskarans. Hvað er hún? spyrja menn. Lítum á
fjallið, sem blasir við augum Reykvíkinga. Það er ekki Esjan, sem
borgarinn hrósar í daglegri umræðu. Það er fjallið, sem málararnir
keppast við eða kepptust að minnsta kosti við að lýsa í myndum
sínum: Akrafjall. Jón Stefánsson hefur gælt við þessa hnútu á lík-
ama landsins oftar en einu sinni, að ég hygg. Hún freistar Schevings
á stundum. Og þeir eru sannast að segja fáir landslagsmálararnir,
sem hafa treyst sér til að láta hana afskiptalausa með öllu. En áður
en ég fer að hreyfa við henni frekar á þessu líkingamáli, langar
mig til að minnast á íslenzkt landslag yfirhöfuð og formræna hlið
þess
íslenzkt landslag — margir hljóta að vera mér sammála um, að
það er afarólíkt ásjónu Danmerkur til að mynda. Danmörk býr
yfir yndislega veikbyggðum og mjúkum línum en ísland rís úr hafi
sem tignarleg klettaborg, köld og miskunnarlaus á að líta. Og þegar
inn yfir landið er komið vex sú tilfinning innra með manni, að
brunasandarnir, svörtu fjöllin og hvítu jöklarnir séu í rauninni
heimkynni dauðans, hins sterka og seiga dauða, sem aldrei verður
rekinn út úr samfélagi okkar. En jafnvel dauðinn getur verið bráð-
lifandi. Það vitum við mennirnir bezt, ef við beinum huganum inn
að okkur sjálfum. í vitund minni og vitund þinni er hann að minnsta
kosti lifandi staðreynd, snara, sem hangir yfir lífi einstaklings. Á
sama hátt er íslenzkt landslag lifandi í dauða sínum og rúmlega
það. Inn í kyrrláta formmynd þess smýgur andi tröllslegra átaka,
einhvers konar demón náttúrunnar. Það belgir út fjallið eða ásinn
og þrengir sér inn í hvern krók og kima.