Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Blaðsíða 42
Tímarit Mdls og menningar
menntamálaráðuneytinu, sem þó hrökk hvergi nærri til að standa straum
af kostnaði við útgáfuna. Reynt var að dreifa ritinu vestanhafs þegar
"Scandinavia Today“ var hleypt af stokkunum í september síðastliðnum
og gekk verr en ég hafði gert mér vonir um. Hinsvegar hefur það verið
sent stórum hópi rithöfunda um heim allan, svo og bókasöfnum og
öðrum menningarstofnunum. Það hefur verið til sölu í nokkrum bóka-
búðum hérlendis.
Helga Kress tekur réttilega fram að val höfunda sé alltaf umdeilanlegt,
en telur síðan upp hóp höfunda sem hefðu átt að vera í ritinu og aðra
sem ekki eða síður hefðu átt að vera þar. Um slík efni er vitaskuld
gagnslaust að þrátta. Við Kristjana höfðum okkar eigið persónulega mat
og smekk að leiðarljósi, og ég sætti mig við að Helga Kress hafi annan
smekk og aðra viðmiðun. A hitt er rétt að leggja áherslu, ef verða mætti
til nokkurrar skýringar, að við höfðum nákvæmlega tvo mánuði til að
ganga frá ritinu, velja efni, fá það þýtt, láta setja ritið og prenta og koma
því á framfæri. Við urðum því í mörgum tilfellum að notast við þýðingar
sem til voru, en gera ráðstafanir til að fá annað efni þýtt í skyndingu. Eg
harma að sjálfsögðu að hvorki var tími né pláss til að taka fleiri höfunda
með í ritið og sakna þar sárast Jakobínu Sigurðardóttur. En ætlunin var
aldrei, að þeir höfundar sem ættu efni í ritinu skyldu fortakslaust
dæmdir 33 bestu höfundar í landinu, en aðrir settir skör lægra. Ritið var
aldrei hugsað sem mælistika á íslenska höfunda, heldur vakti einungis
fyrir okkur að kynna erlendum lesendum hóp íslenskra höfunda sem
ættu til bitastæð verk í enskri þýðingu eða auðvelt væri að snara í flýti.
Helga Kress telur að mjög skorti á að ritið gefi „sem réttasta og besta
mynd af því sem er að gerast í íslenskum bókmenntum og íslenskum
veruleika“. Ekki skal ég deila við hana um þann dóm, en þætti gaman að
vita hvort hún telur sjálfa sig eða nokkurn annan einstakling geta valdið
svo erfiðu verkefni. Réttust og best mynd, það er stórt orð Hákot. Það
var aldrei ætlunin að semja bókfræðilegt verk þegar ég setti saman
margnefnt kynningarrit, enda lítt lærður í þeirri grein, heldur vakti fyrir
mér að birta sýnishorn af verkum þeirra samtíðarskálda sem mér þóttu
nokkru máli skipta. Það gefur auga leið að ekki er nokkur vegur að gefa
rétta mynd af skáldi með 3—4 ljóðum eða einni sögu, en ég tel hinsvegar
að með þessum 33 höfundum hafi fengist viðunandi smækkuð heildar-
mynd eða forsmekkur af því sem íslenskir höfundar eru einkum að fást
við og fjalla um. Og það skal tekið fram, að langflestir þeirra höfunda
sem kynntir eru í ritinu (ég hef ekki náð til þeirra allra) eru hæstánægðir
160