Tímarit Máls og menningar - 01.04.1983, Page 75
/ GranacLa var gLepurinn framinn
stað þar sem því var trúað hann hefði verið drepinn. Og reyndi á
þessum stað þá stund að magna eitthvað í hug mér sem ég gæti geymt
á vegferð minni um ókomin ár, og einhvern tímann nýtt, vonaði ég.
Þá vissi ég ekki sem nú er talið víst að Lorca hafi verið drepinn í
Viznar en ekki í Granada. Það vissi skáldbróðir hans Antonio
Machado heldur ekki þegar hann orti eftir hann ljóðið Skáldið og
dauðinn. Miðkaflinn heitir einmitt eins og fyrr var sagt: El crimen
fué a Granada, í Granada var glæpurinn framinn.
Og því kannski ekki að undra að ég næði ekki að finna á staðnum
þar sem ég stóð á hæðinni Sacromonte, Helgafelli, þær tilfinningar
þéttast hið innra með mér sem áttu að verða ógleymanlegar og
einstaklegar í farangrinum.
Enginn veit hinsvegar hvar García Lorca liggur grafinn, fremur en
Mozart; sem líka var lagður í fjöldagröf.
III. Llanto por Ignacio Sanchez Mejias
Eg hafði staðið á hæðinni þar sem ég hélt eins og flestir að Federico
García Lorca hefði verið skotinn til bana, þann 19. ágúst 1936.
I harmljóðinu sínu um nautabanann Ignacio Sanchez Mejias sem
dó í nautaatshringnum klukkan fimm um eftirmiðdag segir: A las
cinco de la tarde./Eran en punto las cinco de la tarde — það var á
slaginu klukkan fimm að kvöldi.
Og þessi orð eru endurtekin framan af þessu fagra og máttuga
erfiljóði sem Lorca orti eftir þennan góða vin sinn sem féll fyrir
vígnauti, af hvassbeittum hornum þess í sólbakaðan sandinn, og dó.
A las cinco de la tarde, þau orð glymja með dumbum hljómi eins og
Líkaböng, aftur og aftur.
a las cinco de la tarde
Lo demás era muerte y solo muerte
a las cinco de la tarde
klukkan fimm að kvöldi
Allt annað var dauði og einungis dauði
klukkan fimm að kvöldi . . .
. . . og síðar kveður skáldið í angist sinni yfir vin sínum sem hneig
til heljar:
193