Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Blaðsíða 15
Fimm sögur
í þrengsta skilningi get ég samt ef til vill svarað fyrirspurn ykkar
og ég geri það meira að segja með mikilli ánægju. Það fyrsta sem ég
lærði var að taka í höndina á fólki; handaband vitnar um hreinskilni.
Núna, á hátindi ferils míns, get ég líka látið hreinskilnisleg orð fylgja
fyrsta handtakinu. Þau munu samt ekki færa Akademíunni neinn
mikilvægan nýjan fróðleik og eru miklu lítilfjörlegri en það sem
ætlast er til af mér og mér er ógerningur að segja, þrátt fyrir góðan
vilja — eigi að síður eiga þau að gefa til kynna hvaða leið fyrrverandi
api hlaut að fara til að komast inn í veröld mannsins og taka sér þar
bólfestu. Samt ætti ég ekki einu sinni að segja frá þeim smámunum
sem hér fara á eftir ef ég væri ekki alveg viss í minni sök og ef staða
mín á stærstu fjölleikasviðum hins siðmenntaða heims væri ekki
orðin óhagganleg:
Eg er ættaður af Gullströndinni. Um það hvernig ég var handsam-
aður verð ég að styðjast við skýrslur annarra. Veiðimenn úr leiðangri
Hagenbeck-fyrirtækisins — síðan hef ég reyndar tæmt marga góða
rauðvínsflöskuna með foringjanum — lágu í leyni í kjarrinu við
bakkann kvöld eitt þegar ég hljóp í stórum hópi til vatnsbólsins.
Það var skotið á okkur; ég var sá eini sem varð fyrir skoti; mig hæfðu
tvö skot.
Annað fékk ég í vangann; það var laust en skildi samt eftir sig
stórt, hárlaust, rautt ör sem varð til þess að ég hlaut nafnið Rauði-
Pétur, andstyggilega og gjörsamlega óviðeigandi nafngift sem enginn
nema einhver api hefði látið sér detta í hug, rétt eins og eini
munurinn á mér og tömdu apaskepnunni Pétri, sem kunnur var hér
og þar og geispaði golunni nýverið, væri sá að ég hefði rauðan blett á
kinninni. Þetta var útúrdúr.
Hitt skotið hæfði mig neðan við mjöðmina. Þetta var hörkuskot
og það á sök á því að ég er ennþá dálítið haltur. Fyrir skömmu las ég
grein eftir einhvern þeirra tíuþúsund grasasna sem þvaðra um mig í
blöðunum: ekki hafi enn tekist að bæla niður apaeðli mitt að fullu;
þetta sannist á því að ég fari með ánægju úr buxunum þegar gestir
koma til þess að sýna hvar þetta skot hljóp í mig. Réttast væri að
fingur þeirrar handar, sem skrifaði þetta, væru skotnir af einn og einn
í senn. Eg hlýt að mega fara úr buxunum fyrir hvern sem mér sýnist;
þar er ekkert að sjá nema vel hirtan loðfeld og örið eftir — í
ákveðnum tilgangi skulum við velja hér ákveðið orð sem samt má
245