Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Blaðsíða 77
Söngur um sjálfan mig
Andrúmsloft er ekki ilmvatn, ber óáfengan keim, er þeflaust,
Það er mér gómtamt, ég er skotinn í því.
Eg ætla útá skógarásinn, afklæðast dulargervinu og vera nakinn.
Ég er óður í atlot lofts.
Eimur af anda mínum,
Bergmál, gárar, suðandi hvískur, ástagras, silkiþráður, klof og
vínviður,
Innöndun og útöndun, hjartsláttur, streymi blóðs og lofts um
lungun,
Ilmur af grænu laufi og visnu, af strönd og svörtum skerjum og
heyi í hlöðu,
Omur af orðum míns hrjúfa róms sem feykjast útí hringiðu vinda,
Fáeinir léttir kossar, faðmlög, þétt armtök,
Leikur ljóss og skugga á trjám þegar mjúkt limið vaggast,
Unaður í einsemd eða þys stræta, í brekkum og á ökrum,
Heilbrigðiskennd, hádegisraul og söngur þegar ég fer framúr og
heilsa árroðanum.
Hélstu að þúsund hektarar væru einhver ósköp? Hélstu að jörðin
væri stór?
Varstu óratíma að læra að lesa?
Varstu hreykinn af að nema merkingu ljóða?
Vertu hjá mér í dag og nótt og þú skalt eignast upptök allra ljóða,
Þú skalt eignast gæði jarðar og sólar (milljónir sólna eru afgangs),
Þú skalt ekki framar sjá neitt eftir krókaleiðum né með sjónum
dauðra né nærast á bókavofum,
Þú skalt ekki heldur sjá með mínum sjónum né þiggja neitt af mér,
Þú skalt hlera til allra átta og sía allt í sjálfum þér.
307