Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Blaðsíða 35
É& var í miklum vanda staddur
arsjóði); til dæmis má nefna fyrstu yfirheyrslu Jósefs K., eða fyrstu
heimsókn hans til lögfræðingsins. Einnig má benda á atburðina við
sjúkrabeðinn í sögunni „Sveitalæknir“. Annars konar og róttækari
framandleika er að finna í sögum eins og „Hamskiptunum" (kom út á
íslensku hjá Menningarsjóði 1960), sem hefst með því að farandsalinn
Gregor Samsa vaknar morgun einn og hefur breyst í stórvaxið skordýr.
Og því verður ekki hnikað, því eins og Walter Benjamin segir í ritgerð
um Kafka, þá rennur það upp fyrir lesendum að dýrasögur Kafka „fjalla
alls ekki um menn.“2 Samsa verður aldrei annað en skordýr í sögu
þessari sem hefur svo „raunsæislegt“ yfirbragð; við fáum aldrei að sjá
hann fyrir okkur í mannsmynd. Svipað gildir um apann í „Skýrslu handa
akademíu".
I leikhúsi Brechts er áhorfendum ætlað að „lesa“ úr fjarlægð hin ýmsu
sviðstilvik, sem Brecht kallaði „Gesten" og geta falist í hreyfingu,
bendingu, lúðraþyt, stökum setningum, jafnvel augnaráði, raunar í
hverju því smáatriði sem gerist á sviðinu. Hjá Kafka gætir sömu
vandvirkni í skipulagningu einstakra tilvika og smáatriða; látbragð
persóna er ljóslifandi og þrungið merkingu fyrir augum okkar. En í
merkingunni skiljast leiðir með þessum höfundum. Brecht ætlast til þess
að merking hans komist heil til skila; steyttur hnefi á að geta verið
áhorfandanum ljóst tákn um hatramma baráttu verkalýðs. Hins vegar
virðist oft vonlaust að ráða í tákn Kafka. I Réttarhöldunum beinist
athyglin oft að skeggi manna og hvernig þeir grípa í það, en hvers vegna?
Hvað merkir hinn sérkennilegi fæðingargalli Lení sem K. hrífst svo af?
Hvað merkir það, svo tekið sé áberandi dæmi úr sögu hér að framan, er
fjölskyldan og öldungarnir berhátta sveitalækninn á meðan skólakór-
inn syngur fyrir utan? Hvað á furðuhluturinn Odradek í „Ahyggjum
húsbóndans“ að tákna?
Viðtökur
Þar með hefur okkur borið að túlkunarvanda þeim sem hjúpar kjarnann
í verkum Kafka. Ymsir gagnrýnendur sjá verk þessi sem klasa af táknum
og jafnvel sem dæmisögur, en Kafka var mjög hrifinn af því frásagnar-
formi. Það óþægilega við dæmisögur Kafka er, eins og Theodor Adorno
bendir á, að „lyklinum hefur verið stolið."3 Við vitum ekki hvernig ráða
má í þetta „dulmál", lesa úr því merkingu. Sá sem ætlar sér að túlka eða
skrifa um Kafka er því í miklum vanda staddur. Gott ef hann verður
265