Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Blaðsíða 102
Tímarit Máls og menningar
Höfundar sækja alltaf efnivið í frásagnir sínar til eigin reynslu. Þeir setja
ímyndanir sínar á svið. Þess vegna gerum við okkur í hugarlund að Andri
eigi ýmislegt sameiginlegt með höfundi sínum, en meginmunurinn á
vitneskju þeirra er, eins og orðræðugreiningin sýnir, að höfundur Andra
veit að leiðin að hinu heilaga hofi rithöfundarins verður ekki fundin með
formúlu, heldur felst hún í vinnu. Vegna þessa mikilvæga munar á vitneskju
getur höfundur sýnt Andra í skoplegu ljósi, og skopið verður enn meira af
því að það nær einnig til almennrar hugmyndar: að rithöfundargáfan sé
aðeins gefin hinum útvöldu.
Textasamhengi
Textasamhengi (diskurs) er orð sem tákneðlisfræðin notar um safn allra
texta, talaðra eða ritaðra, í tilteknu samfélagi. Textasamhenginu er hægt að
skipta í einstakar deildir á kerfisbundinn hátt, þannig að við tölum t. d. um
trúarlegt textasamhengi, þ. e. a. s. hinn ’almenna skilning’ eða samkomulag
um hvað sé trúarlegt, heimspekilegt textasamhengi, pólitískt textasamhengi,
vísindalegt textasamhengi, o. s. frv.
Hvert einstakt textasamhengi innrætist í einstaklinginn um leið og fé-
lagsmótun hans fer fram, og hvert textasamhengi breytist í rás sögunnar.
Þannig höfum við annan skilning á því nú hvað vísindi séu en menn höfðu í
Kínaveldi hinu forna. Michel Foucault getur þess hvernig dýr voru flokkuð
í gamalli, kínverskri alfræðibók:
a) dýr í eigu keisarans, b) smurð dýr, c) tamin dýr, d) grísir á spena, e)
hafgúur, f) kynjadýr, g) óskiladýr, h) dýr sem falla undir þessa
flokkun, i) vitskert dýr, j) dýr sem teiknuð eru með smágerðum
úlfaldahárspensli, k) ótal dýr, 1) o. s. frv., m) dýr sem eru nýbúin að
mölva vatnskrukku, n) dýr sem úr mikilli fjarlægð líkjast flugum.
(Foucault, bls. xv.)
Þetta er dæmi um ’vísindalegt textasamhengi’ í Kínaveldi hinu forna. Nú
einkennist það fremur af skynsemishyggju, áherslu á orsök/afleiðingu,
líkindi/mismun.
Það er augljóst að höfundur hefur aldrei fullkomna þekkingu á því
textasamhengi (af ýmsu tagi) sem hann sækir efni sitt í. Lilja fjallar einmitt
um þá vitneskju sem ekki verður höndluð í sviðsetningunni. Höfundur er
sjálfur settur á svið af sögulegum skilyrðum. Þessu getum við lýst með því
að bæta við líkan orðræðunnar:
\
332