Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Blaðsíða 44
Tímarit Máls og menningar
skynjaði Kafka ætíð sem andstæðu við aðra þætti lífs síns. Hún virðist
hafa verið honum sama kvalafulla vitundarstarfið og það sem hrjáir
ýmsar persónur hans, markað hinum stóru spurningum sem vikið var að
í kaflabyrjun. Þetta starf kallaði hann stundum „baráttuna við heiminn“
— „barátta" („Kampf") er raunar mikilvægt orð í skáldskap hans frá
upphafi — hún einkennist af óvæginni rýni undir það hversdagslega
yfirborð sem veröldin hefur ætíð til reiðu, okkur til þæginda og blekk-
ingar. Lífið skynjaði hann því iðulega sem togstreitu milli tveggja heima,
eða tveggja sjónarhorna á sama heiminn; á endanum er það spurning um
tvenns konar lífsmáta, sem eftir sögum hans einum að dæma er þó
hvorugur góður.
„A efstu svölunum" er einkar gott dæmi um þetta. I fyrri hluta
sögunnar erum við í huga áhorfanda sem sér í gegnum yfirborðið,
skynjar sannleikann á bak við það á næstum því ýktan hátt; hann
hleypur fram til að stöðva þetta ódæði. En síðari hlutinn segir okkur að
þetta sé alls ekki svona; þess í stað er glansmyndin dregin upp og við
hana getur áhorfandinn verið sáttur, hann vill vera í samlyndi við lífið.
En Kafka lýkur sögunni með dæmigerðri tvíræðni. Grætur áhorfandinn
vegna þess hve fagurt lífið er á að líta, eða vegna þess að „án þess að vita
af því“ skynjar hann innst inni hina hróplegu blekkingu sína (sem myndi
þá vísa okkur aftur til fyrri söguhlutans)?
„Skýrsla handa akademíu“ er ólík öðrum sögum Kafka sem íslensk-
aðar hafa verið; sýnir á honum aðra hlið. Þeir sem eiga erfitt með að
skynja húmorinn sem birtist í Réttarhöldunum17 og í „Ahyggjum hús-
bóndans" munu hér finna hefðbundnari kímnigáfu. Jafnframt býr sagan
öll yfir leiftrandi íróníu. En þó er einnig hér sem ýjað sé að tvenns konar
afstöðu til samfélagsins. Sú írónía sem felst í því að apanum tekst „að
öðlast meðalmenntun Evrópumanns" er auðveld viðfangs fyrir Kafka;
en þessi háðhvörf í sögunni eru engan veginn einhlít, apinn er ekki sá
sigurvegari sem við hlæjum með. Því þessi óvenjulega vitsmunavera
hefur hugmynd um „frelsið", en ákveður að „hlaupast undan merkjum",
finnur „undankomuleið" sem felst í því að samlagast ríkjandi aðstæðum
mannanna. Apinn lifir draum hins vestræna smáborgara; hann hefur náð
frammúrskarandi árangri í starfi sínu (sem vel að merkja er í fjöl-
leikahúsi), býr við allsnægtir og afþreyingu, og getur svalað líkamlegum
hvötum sínum hugsunarlaust. En þótt hann segist ekki kvarta er hann
heldur ekki ánægður.
Eg tel að í mörgum verkum Kafka megi finna þessa togstreitu milli
274