Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Blaðsíða 29
Fimm sögur
rúminu í átt til mín til að minna mig á bón sína; ég tek upp litla töng,
skoða hana í kertaljósinu og legg hana aftur frá mér. „Já,“ hugsa ég
guðlastandi, „í slíkum tilfellum koma guðirnir til hjálpar, senda
hestinn sem vantar, bæta öðrum við þar sem svo mikið liggur á, bera
svo í bakkafullan lækinn með því að útvega hestasveininn —Nú
fyrst kemur mér Rósa aftur í hug; hvað geri ég, hvernig bjarga ég
henni, hvernig dreg ég hana undan þessum hestasveini, í tíu mílna
fjarlægð frá henni og óviðráðanlegir hestar fyrir vagni mínum? Þessir
hestar, sem nú hafa einhvern veginn losað um aktygisólarnar; ýta
upp gluggunum utan frá, ég veit ekki hvernig; þeir stinga höfðinu
hvor inn um sinn glugga og, ótruflaðir af hrópi fjölskyldunnar, virða
þeir fyrir sér sjúklinginn. „Ég fer tafarlaust aftur til baka,“ hugsa ég,
eins og hestarnir hvetji mig til fararinnar, en ég læt mér það líka að
systirin, sem telur mig dofinn af hitanum, taki af mér loðfrakkann.
Sett er fyrir mig glas af rommi, gamli maðurinn klappar á öxl mér,
þessi vinahót réttlætast af því að hann býður mér fjársjóð sinn. Ég
hristi höfuðið; mér yrði óglatt í þröngum hugsanahring gamla
mannsins; einungis af þeim ástæðum afþakka ég að drekka. Móðirin
stendur við rúmið og lokkar mig þangað; ég læt undan og um leið og
annar hesturinn hneggjar hátt upp í loft herbergisins legg ég höfuðið
að brjósti drengsins, sem kennir hrolls undan votu skeggi mínu. Ég fæ
staðfestingu á því sem ég veit: drengurinn er heilbrigður, með dálítið
slæma blóðrás, gegnsósa af kaffi hinnar umhyggjusömu móður, en
heilbrigður og best að reka hann með höggi fram úr rúminu. Ég er
enginn alheimsfrelsari og læt hann liggja um kyrrt. Ég er ráðinn af
héraðinu og ræki skyldur mínar til hins ítrasta, svo ítarlega að
næstum er of langt gengið. Ég er illa launaður, en þó örlátur og
hjálpfús við fátæklingana. Ég verð að annast um Rósu, síðan kann
drengurinn að hafa rétt fyrir sér og einnig ég vil deyja. Hvað geri ég
hér á þessum endalausa vetri. Hesturinn minn er dauður og í þorpinu
er enginn sem lánar mér sinn hest. Ég verð að draga eyki mitt út úr
svínastíunni. Ef ekki vildi svo til að það eru hestar yrði ég að spenna
svín fyrir. Svona er það. Og ég kinka kolli til fjölskyldunnar. Þau vita
ekkert um þetta og ef þau vissu það myndu þau ekki trúa því. Það er
auðvelt að skrifa lyfseðla en að öðru leyti er erfitt að ná til fólksins.
Nú, hér væri heimsókn minni sem sagt lokið, ég hef enn einu sinni
verið ónáðaður að óþörfu, því er ég vanur, allt héraðið kvelur mig
259