Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Blaðsíða 80
Gudbergur Bergsson
Um þjóðareinkenni í myndlist
Myndlist hinna ýmsu menningarþjóða er hver með sínum talsvert
sérstaka hætti, þótt skyldleika gæti og viðfangsefnin séu hvarvetna
áþekk eða kannski hin sömu: englar fljúga, kona situr á stól, aldinum er
raðað á borð, hin einföldu viðfangsefni sem veita auganu unað og þeirri
tilfinningu sem býr einhvers staðar í skynjun okkar og við köllum gjarna
myndræna skynjun.
Þannig er frönsk myndlist ólík spænskri myndlist eða ítalskri, þýskri
eða breskri. Ahorfandinn þarf ekki að hafa mjög þjálfað auga eða vera
sprenglærður til þess að hann geti séð höfuðmuninn á málverkalist
stærstu menningarþjóðanna þótt það kunni að vefjast fyrir tungunni að
lýsa með orðum í hverju munurinn eða einkennin séu fólgin. Einkennin
eru aðeins fyrir hendi og skynjunin þekkir þau.
Eitt höfuðvandamál okkar mannanna er að við eigum ekki nægileg
orðtákn eða talhljóð til þess að við getum fært skynjun okkar og
skynsemi í þau. Okkur brestur oft hljóð, orð, bókstafi. Myndlist
stafrófsins og málsins hefur verið að mestu óbreytt síðan ritlist hófst.
Stundum hvarflar að mér að það hafi verið ritlistin sem hefti framgang
tungunnar og þess að maðurinn héldi áfram að tjá sig í nýjum orðum.
Það er engu líkara en ritlistin hafi brugðist hlutverki sínu sem list. Eitt er
víst, að prentað mál er afturhaldssamara og rígskorðaðra en talmálið. Frá
því prentlist hófst, þegar prentarar fengu að leika sér við bókstafalist í
lok hverrar bókar, og fram á tíma auglýsinganna hefur varla verið
haggað við letrinu. Um tíma reyndi ljóðlistin nýverið að auðga málið
með táknum, en því miður varð hin svonefnda konkretljóðagerð tísk-
unni að bráð, fjöldanum, og þeirri innantómu menningartilgerð sem
einkennir síðari hluta aldarinnar.
Eg held það hafi verið franska skáldið Valéry sem sagði að öll orð
væru jafn góð og gild í ljóðlist, ekkert orð væri í rauninni ljóðrænna en
annað. Með sama hætti er hægt að segja að allir litir séu jafngóðir og
gildir meðan þeir eru í túpunum.
310