Tímarit Máls og menningar - 01.06.1983, Blaðsíða 96
Tímarit Máls og menningar
sjaldgæft að persóna snúi aftur til upphafsstöðu sinnar (sem líka er nei-
kvæð), svo að við táknum það einnig sem möguleika með punktalínu. I
staðinn bætist við ný staða, sem líkist upphafsstöðunni, með þeim mikil-
væga mun að óþægindin hafa verið fjarlægð.
Skýringin er þannig að í viðleitni sinni til að bæta úr vöntuninni lendir
gerandinn í ýmsum hættum sem fela í sér dauðann sem möguleika. Svo
haldið sé áfram með Andra, þá lendir hann í þessu í bókinni EG UM MIG
FRÁ MER TIL MIN, þar sem hann hugleiðir sjálfsmorð: „Best að binda
endi á þetta.“ (bls. 31).
I niðurlagi Persóna og leikenda er Andri enn að leita að réttu hlutverki í
lífinu, hann er enn leikandi. En staða hans er þó önnur en í upphafi
sögunnar. Hann hefur stigið skref sem breytir stöðu hans, hann er kominn
til útlanda.
Við verðum að gera ráð fyrir að allir textar feli í sér röklega séð tvær
hugsanlegar lausnir: dauðann sem alltaf er mögulegur, og lokaaðstæður sem
eru öðruvísi en aðstæður í upphafi.
Við skulum taka tvö dæmi til viðbótar: I sögunni Talað í rör eftir Véstein
Lúðvíksson leitar aðalpersónan að skýringu á því hvers vegna einmitt hann
skuli dæmdur til að vinna við katlana í leiðinlegri fiskimjölsverksmiðju.
Hann vinnur einn sér í lítilli kompu og kemst aðeins í samband við
umheiminn gegnum mjótt rör sem liggur inn til verkstjórans. Persónan
finnur ekki aðeins skýringu heldur býr hana til sjálf. Hann ímyndar sér að
honum hafi orðið það á í einveru sinni að tala svo hátt að verkstjórinn við
hinn enda rörsins hafi heyrt hvernig hann bölvaði verksmiðjunni og yfir-
mönnum sínum. Nú hefur hann skýringu: „Þeir ætla að þegja ef ég fæst til
að vera áfram á kötlunum en kjafta frá ef ég segi upp.“ (I fáum dráttum, bls.
181).
Hann kemst þá fyrst að þessari skýringu eftir að hafa síhækkað róminn
(þ. e. í huga sér, allt er þetta hugsað tal) svo að hann er að lokum ekki viss
um hvort hann hefur æpt eða ekki. Hróp hans ná hámarki þegar hann
ímyndar sér að hann ætli að sprengja verksmiðjuna í loft upp, ef hann verði
ekki fluttur. Það er hér sem dauðinn birtist sem möguleg lausn. Smásagan
hefði getað endað með sprengingunni eins og sagan um Andra hefði getað
endað á sjálfsmorði.
Það er annars þversögn í Talað í rör að ósk mannsins um flutning heyrist
ekki þótt hann hrópi og kalli, jafnframt því að hann segir ekkert og er þó
hræddur um að til sín heyrist. Þetta á sjálfsagt að sýna sjálfskúgun verka-
mannsins (ytra vald er innbyrt og verður innra vald) og þá þversögn að
verkalýðurinn hefur aldrei búið við betri efnaleg kjör en undir oki þess
kapítalisma sem kúgar hann. Þessu má lýsa með líkaninu:
326