Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Síða 36
Tímarit Máls og menningar
4. Hann þarf að taka sögu með atburðarás og samtöl fram yfir þá sem
ekkert slíkt hefur.
5. Hann þarf að hafa séð kvikmynd eftir bókinni.
6. Hann þarf að vera tilvonandi rithöfundur.
7. Hann þarf að hafa ímyndunarafl.
8. Hann þarf að hafa gott minni.
9. Hann þarf að eiga orðabók.
10. Hann þarf að búa yfir listrænum skilningi.
Nemendurnir voru mjög hallir undir tilfinningalega samsömun, atburðarás
og félagsleg, efnahagsleg og söguleg viðhorf. Eins og þið hafið vafalaust
getið ykkur til er góður lesandi sá sem býr yfir ímyndunarafli, minni,
orðabók og listrænum skilningi — en þann skilning hyggst ég reyna að
þroska með sjálfum mér og öðrum hvenær sem tækifæri gefst.
Raunar er notkun mín á orðinu lesandi afar losaraleg. Það skrýtna er
nefnilega að það er ekki hægt að lesa bók, það er einungis hægt að endurlesa
hana. Góður lesandi, virkur og skapandi lesandi er sá sem les aftur. Og nú
skal ég útskýra ástæðuna. Þegar við lesum bók í fyrsta sinn verðum við að
færa augun með erfiðismunum frá vinstri til hægri, línu eftir línu, blaðsíðu
eftir blaðsíðu og þessi flókna líkamlega áreynsla sem það kostar okkur að
kynnast efni bókarinnar stendur í vegi fyrir listrænum skilningi. Þegar við
horfum á málverk þurfum við ekki að hreyfa augun á neinn ákveðinn hátt
jafnvel þótt myndin, eins og bókin, búi yfir dýpt og framvindu. Við fyrstu
kynni okkar af málverki skiptir tímaþátturinn raunar engu máli. Þegar við
lesum bók þurfum við tíma til að kynnast henni. Við höfum ekkert sérstakt
skynfæri (eins og við höfum augað þegar málverk er annars vegar) sem
grípur heildarmyndina og getur síðan notið smáatriðanna. En við annan eða
þriðja eða fjórða lestur förum við á vissan hátt að umgangast bókina eins og
málverk. Við megum hins vegar ekki rugla auganu, þessu óhemjulega
snilldarverki þróunarinnar, saman við hugann, ennþá óhemjulegra afrek.
Bókin, hverrar gerðar sem hún er, höfðar fyrst og fremst til hugans.
Hugurinn, heilinn, hríslingurinn í mænunni eru einu tækin sem nota ber við
bóklestur.
Ur því að þessu er þannig varið ættum við að velta fyrir okkur þeirri
spurningu hvernig hugurinn starfi þegar fýlulegur lesandi stendur frammi
fyrir sólríkri bók. Það fyrsta sem gerist er að fýlan rýkur burt og lesandinn
gefur sig anda leiksins á vald. Það er oft erfitt að byrja á bók, einkum hafi
hún hlotið hrós frá fólki sem ungum lesanda finnst innst inni of fornt í skapi
ellegar alvöruþrungið, en takist að yfirstíga þennan hjalla er umbunin
ríkuleg og fjölbreytt. Þar sem listsnillingurinn beitti ímyndarafli sínu við
506