Tímarit Máls og menningar - 01.11.1983, Page 70
Tímarit Máls og menningar
kvennabókmenntirv hafi leitt menn út í kreddur eða einhvern ófrávíkjan-
legan „sannleika“, þá er kominn tími til að vefengja þann sannleika og ögra
honum. Þess vegna er líka gott að fram komi ögrandi karlabókmenntir eins
og t.d. Hjartað býr enn í helli sínum eftir Guðberg Bergsson.
Undanfarinn áratug hefur verið gríðarmikil gróska í kvennarannsóknum í
bókmenntum, t.d. á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum, og undanfarið
hefur ekki hvað síst verið könnuð afstaða kvenrithöfunda til bók-
menntahefðarinnar, til viðtekinna gilda innan bókmenntanna. Athygli hefur
þá nokkuð sjálfkrafa beinst að þeim kvenhöfundum sem í meira eða minna
mæli hafa hafnað þeirri hefð, og er andóf þeirra iðulega af módernískum
toga. Kvenhöfundar hafa gegnt mikilvægu hlutverki í formgerðarbyltingu
módernismans, einkum kannski í enskumælandi bókmenntum; koma fljótt
í hugann þær Virginia Woolf, Dorothy Richardson, Djuna Barnes og
Gertrude Stein. Sá íslenskur bókmenntafræðingur sem mest hefur stundað
kvennarannsóknir, Helga Kress, hefur á undanförnum árum einmitt sýnt
mikinn áhuga á verkum Svövu Jakobsdóttur sem er eindregnasti módernisti
íslenskra kvenhöfunda.10
Hinu er ekki að neita að þeir kvenhöfundar sem ætla að fjalla um stöðu og
vanda nútímakonunnar hafa flestir hverjir leitað til þess hluta bók-
menntahefðarinnar sem hefur að geyma hvað ljósasta umfjöllun félagslegra
vandamála, þ.e. til hins hefðbundna raunsæisprósa. Þetta gerist þá oft án
tillits til þess að hefð þessi er að mestu mótuð af karlhöfundum, eða þess
hversu mikill vandi fylgir því í raun að fara svona troðna slóð og ætla sér
samt að veita lesendum nýtt eða óvanabundið sjónarhorn á raunveruleikann
og samfélagið.
Svava Jakobsdóttir hefur einmitt oftar en einu sinni haldið því fram að
hefðbundið raunsæi fleyti áfram vanabundnum hugsunum og hugmyndum
um lífið og veruleikann. Hún er sér einkar meðvituð um viðtöku verka
sinna, lætur sér sérstaklega annt um hvernig þau eru lesin. — Jonathan
Culler fjallar í nýlegri bók um það hvernig karlmenn hafa í raun mótað
lestrar- og túlkunarhefð í bókmenntarannsóknum, og telur hann tímabært
að velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að lesa öðruvísi, leita að öðru í textanum
en vanalegt er og túlka hann í nýju ljósi; í rauninni að “lesa sem kona“." Að
sjálfsögðu má þetta ekki leiða ti! einsýni í túlkunum; varasamt er t.d. að
meta formgerð eða bókmenntalegt gildi texta eftir því hvaða afstaða til
kvenna birtist í þeim. En spurningin er hvort lesendur, jafnt konur sem
karlar, geti víkkað túlkunarsvið sitt, hafi vilja til að bæta sjónarhorni
konunnar inn í túlkun sína á textum sem fjalla um mannleg samskipti og
samfélag.
Eg tel að Svava vilji beinlínis stuðla að slíkri viðtöku verka sinna með
540