Són - 01.01.2005, Page 51
JÓÐMÆLI 51
Eftirmáli — Varðveisla kvæðisins
1. Barngæludiktur í AM 720 a IX 4to
Á Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi eru varðveitt skinnblaðabrot
undir markinu AM 720 a 4to I–XI. Þau eru úr mörgum handritum
er geyma guðrækilegt efni frá 15., 16. og 17. öld. Brotið sem merkt er
AM 720 a IX 4to er tvíblöðungur með 28 erindum úr kvæðinu
Barngæludikti. Kvæðið hefst fyrirsagnarlaust efst á fremsta blaði. Sjötta
vísuorð í 22. erindi er neðst á bl. 1v og vantar því næst blöð inn í,
óvíst hve mörg. Á bl. 2r er niðurlag kvæðisins, sex erindi, á hið fyrs-
ta vantar eitt vísuorð. Kvæðinu lýkur á miðju blaðinu, undir er máð
letur, líklega bæn. Á bl. 2v hefir letrið verið skafið upp og skrifað eit-
thvað nú útmáð að mestu utan bænarákall með munkaletri neðarlega
sem svo má lesa: „guð minn hjálpaðu mér minn veg á og kenn mér
hvað eg skal gjöra.“
Sjá má móta fyrir eldri upphafsstöfum í litum sem vitna um að
skinnið er uppskafningur og hefir síðar verið brotið á jöðrum og haft
utan um kver. Á seðli sem blöðunum fylgir hefir Árni Magnússon
skrifað: „Fra Monsr Jone Widalin Elldra 1725.“ Jón eldri var sonur
Páls Vídalíns lögmanns í Víðidalstungu og Þorbjargar Magnúsdóttur
frá Vigur, nam læknisfræði og starfaði við þá grein í Kaupmannahöfn
til 1724; má vera hann hafi notað blöðin utan um lækningakver.
Skinnbrotið er ómjúkt og nokkuð gróft settletur á; stafsetning og
áferð benda til þess að skrifað sé um 1600, því að skrifari gerir grein-
armun á i, y og í, ý. Oftast er ö-hljóð skrifað o, en einnig au svo sem
‚lofsaung‘, ‚aufund‘, ‚aurlat‘ og ‚staungum‘.
Í handritinu er hverju erindi skipt í fjögur vísuorð og skil milli
vísuorða yfirleitt mörkuð með semíkommu sem er sleppt ef vísuorðin
mynda óslitna yrðingu. Erindaskil eru mörkuð með punkti sem sett-
ur er um miðbik bókstafa í línu og næstfarandi erindi hefst á upphafs-
staf. Í prentun er hvert vísuorð sett sér í línu og erindin tölusett til
hægðarauka.
2. Barngælubálkur í AM 720 b 4to
Árni Magnússon prófessor í Kaupmannahöfn fékk á Íslandi árið 1704
fallega gerða rímnabók frá Magnúsi Jónssyni. Árni kenndi Magnús
við Snóksdal en kallaði bókina Hólsbók. Magnús Jónsson var lærður
í Skálholtsskóla, sonur séra Jóns Hannessonar í Snóksdal og konu
hans Guðbjargar Jónsdóttur, bjó með móður sinni, þá ekkju, að Hóli