Són - 01.01.2005, Page 76
RAGNAR INGI AÐALSTEINSSON76
Matthías er alls ekki samkvæmur sjálfum sér í notkun á hljóðinu s
í stuðlun. Innan um þessi þrjú dæmi sem finnast um s-stuðlun getur
að líta önnur þrjú braglínupör þar sem ljóðstafirnir eru s + sérhljóð
eða sj en klasarnir sl og sn standa í framstöðu í áhersluatkvæðum
þannig að ef þeir stuðla við s + sérhljóð er um ofstuðlun að ræða.
Dæmin eru þessi:
Sjá hvar silfurfagur
situr Snæfellsás.
(M. Joch.: Til Jóns Sigurðssonar 11–2)
(Þessar línur eru endurteknar í næsta erindi kvæðisins)
Snorrason ég sveik í trú
og seldi kosti rýra.
(M. Joch.: Gissurar ríma Þorvaldssonar 143–4)
slóðum lands þú samdir siðu,
sjómenn hófst til vegs og blóma.
(M. Joch.: Markús Bjarnason 63–4)
Í fyrsta dæminu eru ljóðstafirnir s + sérhljóð og sj, þ.e. stafapörin sj, si
og si. Sn í Snæfellsás hlýtur því að skapa ofstuðlun ef sn stuðlar við s +
sérhljóð. Það sama á við um Sn í Snorrason í öðru dæminu og sl í slóðum
í því þriðja. Sá sem lætur klasana s + sérhljóð, sj, sv, sl, sm og sn mynda
einn jafngildisflokk hlýtur að sjá ofstuðlun í öllum þessum dæmum.
Tvö dæmi enn úr rannsókninni benda í sömu átt:
Enginn trúði æðri stjórn -
ekki sjálfur Snorri.
(M. Joch.: Gissurar ríma Þorvaldssonar 61–2)
höll, sem geymir listaljóma
langa tíð í snilldar smíði.
(M. Joch.: Sjáland 53–4)
Í fyrra dæminu eru sérhljóðarnir ljóðstafir. Ef sj stuðlar við sn, eins og
gerist í s-stuðlun, er hér um aukaljóðstafi að ræða. Í seinna dæminu
eru ljóðstafirnir samhljóðinn l en ef sn stuðlar við sm (um það finnast
raunar ekki dæmi) þá verða sn í snilldar og sm í smíði aukaljóðstafir.