Són - 01.01.2005, Page 87
Þorsteinn Þorsteinsson
Þankabrot um ljóðbyltingar
Í grein sem ég skrifaði á hálfrar aldar afmæli fyrstu ljóðabókar
Sigfúsar Daðasonar bar ég fram tvær spurningar án þess svo sem að
reyna mikið til að svara þeim: „Í hverju fólst sú bylting sem varð í
ljóðagerð á Íslandi á fimmta áratug síðustu aldar, og hvernig stóð á
henni?“1 Báðar spurningarnar eru yfirgripsmiklar en þó ætti að vera
hægt að svara þeirri fyrri af nokkru öryggi með athugun og saman-
burði á ljóðum sem ort voru á Íslandi fyrir og eftir 1945 (svo eitthvert
ártal sé nefnt), en þetta tvennt, athugun og samanburður, hefur löng-
um verið meginaðferð bókmenntakönnunar og bókmenntasögu.
Ýmsir hafa þegar lagt fram slíkar athuganir.2 Síðari spurningin, um
orsakir ljóðbyltingarinnar, er annars eðlis og mun örðugri viðfangs.
Henni verður ekki svarað með einum saman athugunum, og hún er
ekki bundin við Ísland eitt. Hér verður staðhæft að hún verði ekki
skilin nema í samhengi við þá byltingu í ljóðagerð sem varð á seinni-
hluta 19. aldar í Frakklandi og endurkast þeirrar byltingar víða um
lönd á fyrrihluta hinnar tuttugustu. Spurningin er áleitin þegar litið er
yfir það undraverða tímabil í íslenskri menningarsögu sem fimmti
áratugurinn var, og ætlunin er að skoða hana og fleiri atriði hér á eftir
þótt við endanlegum svörum sé ekki að búast.
Misgamlir jafnaldrar
Bandaríkjamaðurinn Peter Carleton (Kári Marðarson) sem skrifaði
doktorsritgerð um þróun íslenskrar ljóðlistar á 20. öld benti á atriði
sem er einkar athyglisvert frá sjónarmiði bókmenntasögu. Hann
spurði: Hvers vegna höfðaði Eyðilandið eftir T.S. Eliot til Hannesar
1 Þorsteinn Þorsteinsson (2001:113–140).
2 Dæmi: Peter Carleton (1967), Eysteinn Þorvaldsson (1980; 2002; 2004), Örn
Ólafsson (1992). Þá hafa verið skrifaðar nokkrar BA-ritgerðir um skáld tímabilsins.