Són - 01.01.2005, Page 126
ÞORSTEINN ÞORSTEINSSON126
skáldanna. Á þessum tímapunkti urðu því hvörf í sögu íslenskrar
ljóðlistar líkt og orðið höfðu áður í öðrum Evrópulöndum. Strax upp
úr stríði fóru þeir Jón úr Vör, Steinn Steinarr, Hannes Sigfússon og
fleiri skáld til Norðurlanda og um sama leyti fór Anonymus að birta
ljóð sín og ljóðaþýðingar. Á næstu árum rak svo hver bókin aðra þar
sem sagt var skilið við íslenska ljóðhefð að verulegu leyti: Þorpið kom
1946, Tíminn og vatnið 1948, Dymbilvaka 1949, Svartálfadans, Ljóð
1947–1951 og Imbrudagar árið 1951.
Þeir Jón Óskar og Sigfús Daðason sem fóru ekki strax utan lásu
ekki síður af kappi erlend ljóð, eins og Jón greinir frá í endurminn-
ingabókum sínum. Hið sama má ráða af bókaeign Sigfúsar. Sá lestur
réð tvímælalaust miklu um þá stefnu sem þeir tóku. „[Ég get] varla
hugsað mér að „formbyltingin“ hefði orðið nema fyrir áhrif af lestri
ljóða eftir erlenda höfunda,“ ritaði Jón Óskar löngu síðar.112 Þeir Jón
og Sigfús höfðu mikið samneyti á seinnihluta fimmta áratugarins eins
og fram kemur í bókum Jóns, mun nánara en aðrir í skálda-
hópnum.113 Meðal annars þýddu þeir töluvert í félagi —
í fyrstu kvæði eftir Carl Sandburg, W.B. Yeats, Cecil Day Lewis,
E.E. Cummings o.fl., en seinna þýddum við eftir Paul Eluard og
Pablo Neruda. Það var Sigfús sem átti frumkvæðið að þessu og
hann valdi flest ljóðin. Oftast var hann byrjaður að þýða og
jafnvel búinn að gera einhverja beinagrind, þegar hann kom
með kvæði til mín.114
Eins og ég leitaðist við að sýna fram á í afmælisgreininni voru einkum
þrjú skáld áhrifavaldar um ljóðagerð Sigfúsar þegar fyrsta bók hans
Ljóð 1947–1951 var í smíðum, þeir T.S. Eliot, Paul Éluard og Rainer
Maria Rilke. Og af bókaeign hans má ráða að um það leyti sem hann
fór til Frakklands hafði hann fengið býsna víðtæk kynni af erlendum
samtímaskáldskap.115 Um Norðurlandaskáldin skrifaði Jón Óskar af
nokkru yfirlæti:
112 Jón Óskar (1977:168).
113 Ein bók Sigfúsar, A Portrait of the Artist as a Young Man eftir James Joyce, er árituð
svo: „Sigfús Daðason Rvík ’45, Jón Óskar Rvík 1946, Sigfús Daðason Rvík
1947“.
114 Jón Óskar (1971:33–34).
115 Þegar Sigfús Daðason fór til Frakklands 1951 átti hann meðal annars ljóðabækur
á frönsku eftir Paul Éluard, Louis Aragon, René Char og Paul Claudel. Á ensku
eftir T.S. Eliot, W.H. Auden, Stephen Spender, C.D. Lewis, Louis MacNeice og
Walt Whitman. Á þýsku eftir Bertolt Brecht (og hafði greinilega kynnst Rilke