Són - 01.01.2005, Side 164
VÉSTEINN ÓLASON164
Birtingur stórt skarð í íslenska menntakerfinu og þeirri upplýsingu
sem aðgengileg var á íslensku. Í fyrsta lagi með frásögnum af erlendri
list og myndum sem gáfu manni skýra hugmynd um hvað var á
seyði, andstætt nótnapári tónskálda sem var hebreska þeim sem ekki
voru læsir á nótur, en vakti þó grun um eðli nýjunganna. En mesta
afrek þessa brautryðjendarits nýjungamanna og heimsborgara í list-
um voru þó líklega skrif Harðar Ágústssonar um íslenska bygging-
arlist, forna og nýja. Þar hóf hann með festu, nákvæmni og skarpri
hugsun og framsetningu það starf sem hann síðan hefur haldið áfram
og birt í hverju stórvirkinu á fætur öðru. Hörður byrjar á að fjalla um
nýjustu listina í París og sameinar jafnan alþjóðlegt sjónarhorn hlut-
verki fræðarans sem vill vekja lesanda sinn til vitundar um það sem
verðmætt er og skilnings á því. Hörður veit að lesandann skortir
undirstöðumenntun í myndlistinni og tekst undravel að bæta úr því.
Fljótlega fjallar hann á gagnrýninn hátt um nýjustu byggingarlist í
Reykjavík en víkur svo þegar árið 1958 máli sínu og myndum að
íslenskri byggingarhefð: skálanum á Keldum, gömlum kirkjum og
torfbæjum ellegar timburhúsum í kaupstöðum. Hörður gefur hvar-
vetna gaum að formum, handbragði, heildarsvip. Vanþekking á lista-
sögu hefur lengi verið ein stærsta gloppan í menntun Íslendinga.
Birtingur bætti úr því fyrir þá sem hann sáu, og Birtingsmennirnir
Hörður Ágústsson og Björn Th. Björnsson lyftu grettistaki á þessu
sviði með skrifum sínum í Birtingi og annars staðar, meðal annars í
grundvallarritum um lista- og byggingarsögu.
Nýkominn til Reykjavíkur og sestur í Háskóla Íslands átti ég erindi
við afgreiðslu Birtings, líklega til að tilkynna nýtt heimilisfang og hitti
fyrir Einar Braga í eldhúsinu heima hjá sér (á Bjarnarstíg, minnir mig).
Þá tókust vinarkynni sem síðan héldust, þótt við áttuðum okkur ekki
á því fyrr en löngu síðar að við vorum fjórmenningar, báðir komnir af
Ragnheiði átjánbarnamóður, örsnauðri skaftfellskri konu. Mörg af
ágætustu kvæðum Einars Braga komu í Birtingi, og skrif hans um bók-
menntir og önnur menningarmál voru afbragðsgóð, skýr og drengileg.
En hinn þátturinn var ekki síður mikilsverður, og hafa þeir ekki farið
dult með það, samverkamenn hans, að Einar Bragi var sú kjölfesta sem
tryggði með óþrjótandi elju að Birtingur héldi áfram að koma út, meðal
annars með margvíslegu snatti sem ekki var af andlegu tagi. Það var
áreiðanlega ekki auðvelt að halda þessu riti úti. Það barðist auðvitað í
bökkum alla tíð, og ekki get ég ímyndað mér að ritstjórarnir hafi
nokkurn tíma borið krónu úr býtum fyrir störf sín og skrif, miklu frem-
ur að þeir hafi þurft að leggja ritinu til fé þegar að kreppti, svo að ekki