Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Qupperneq 30
28
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
Guðríður Adda Ragnarsdóttir
að heilinn er mótanlegur og rækileg þjálfun
hefur áhrif á gerð og virkni lessvæðanna.
Jákvætt samband er milli mældrar virkni
þeirra og mældrar lestrarfærni (Meyler, Keller,
Cherkassky, Gabrieli og Just, 2008).
Þeim sem glíma við leshömlun gengur illa
að umskrá málhljóð í bókstafi og bókstafi í
málhljóð. Atferlisrannsóknir á lestri sýna að illa
læsum gagnast skilmerkileg og stefnumiðuð
kennsla og þjálfun þar sem aðaláhersla er lögð
á hin hljóðrænu lögmál lestrarins (Blachman
o.fl., 2004; Gabrieli, 2009; Guðríður Adda
Ragnarsdóttir, 2007; Meyler o.fl., 2008;
Vellutino, Fletcher, Snowling og Scanlon,
2004). Hljóðræn lestrarkennsla getur verið
samtengjandi eða sundurgreinandi.
Samtengjandi hljóðaaðferð
Hljóðaaðferð við lestrarkennslu byggist á
grunneind málsins – málhljóðinu (e. phone)
(Lundberg, 1994). Aðferðin telst vera sundur-
greinandi (e. analytic) þegar unnið er út frá
samsettum heildum, setningum og fjölkvæðum
orðum sem eru greind niður í smærri eindir
eins og atkvæði og málhljóð (Ásthildur Bj.
Snorradóttir og Valdís B. Guðjónsdóttir,
2001; Helga Friðfinnsdóttir, Sigrún Löve og
Þorbjörg Þóroddsdóttir, 1999). Andstæða þess
er samtengjandi (e. synthetic) ferli þar sem
kennslan hefst á smæstu eindinni – málhljóðinu
– og unnið er upp í stærri heildir, samstöfur,
atkvæði, fjölkvæð orð og setningar (Guðríður
Adda Ragnarsdóttir, 2007).
Þar af leiðandi er nauðsynlegt, þegar talað er
um hljóðaaðferð í lestrarkennslu, að taka skýrt
fram um hvora leiðina er að ræða, þar sem þær
eru ekki sambærilegar þótt þær flokkist báðar
undir hljóðaaðferð. Bein fyrirmæli (e. Direct
Instruction, DI) og hnitmiðuð færniþjálfun (e.
Precision Teaching, PT) eru þekktar aðferðir
við að kenna og þjálfa málhljóð og lestur.
Bæði DI og PT falla undir samtengjandi
hljóðaaðferð.
Bein fyrirmæli
Í beinum fyrirmælum felst allt í senn, tiltekin
námskrá um það sem skal kennt, stefnumiðuð
námsefnishönnun sem segir hvenær í kennslu-
ferlinu það skuli kennt og kennslutækni sem
ræður því hvernig nýrri þekkingu er skilað
til nemandans (Engelman og Carnine, 1991).
Við lestrarkennsluna sem hér verður lýst var
reglum DI fylgt í öllum meginatriðum5.
Þegar kennt er samkvæmt DI-reglum stýrir
kennarinn kennsluferlinu. Hann stýrir því sem
nemandinn á að gera og hvernig, með stuttum,
nákvæmum fyrirmælum. Þau fylgja hröðum
takti og fyrirfram ákveðinni framvindu,
sýna – leiða – prófa, í hverri kennsluumferð
hvers efnisatriðis. Framvindan er alltaf eins
en efnislegt innihald breytist eftir því hvað
kennt er í það og það skiptið. Breytilegt getur
verið hversu margar umferðir þarf til að kenna
hvert atriði. Kennarinn byrjar á að kynna
kennsluatriðið, t.d. tiltekið málhljóð sem hann
segir (sýna). Síðan endurtekur hann atriðið –
málhljóðið – ásamt nemendunum (leiða), og
að lokum segja nemendurnir einir það sem
þeim hefur nú verið kennt (prófa). Nemendurnir
svara upphátt í kór og eru sívirkir í ferlinu. Þar
sem svörin eru merkjanleg, það heyrist, finnst
eða sést ótvírætt hvað nemandinn gerir, veita
þau kennaranum tafarlausar upplýsingar við
hverja svörun um frammistöðu nemendanna og
um það hvernig námið gengur. Kennarinn þarf
þar af leiðandi ekki að geta sér til um raunfærni
nemendanna né bíða eftir niðurstöðum úr næsta
prófi. Námsefnið er lagað að nemendunum með
því að leggja það fram í örsmáum stakstæðum
þrepum (e. discrete trials) (Baer, Wolf og
Risely, 1968) sem raðast rökrétt eftir þyngd
frá hinu einfalda til hins samsetta. Hvert þrep
byggist á því þrepi sem á undan því fór og
er einnig nauðsynlegur undanfari þess þreps
sem á eftir kemur. Hönnun námsefnisins og
framkvæmd kennslunnar auðveldar kenn-
aranum að finna nákvæmlega það þrep sem
5 Direct Instruction (DI) er skráð vörumerki á útgefnu námsefni frá SRA/McGraw-Hill. Áréttað er að ekkert slíkt efni
er til á íslensku. Hér verður talað um Direct Instruction og DI þegar það á við, og einnig um kennslu með beinum
fyrirmælum, sem er tilvísun í kennsluaðferðir DI, en ekki í tiltekið, útgefið DI-námsefni.