Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Síða 38
takti í framvindunni, auk þess sem smelluhljóð
var gefið við réttum svörum. Vikið var frá reglu
beinna fyrirmæla við þjálfun í aðgreiningu, þar
sem lík atriði voru kynnt samhliða (Markle,
1990) og greindi Ása milli dæma og dæmaleysa
við frumkennslu og færniþjálfun, áður en hún
heimfærði nýja kunnáttu og færni við samsett
og framandi verkefni.
Meginhluta allra tíma var varið til hröð-
unarnámsins og áherslan í kennsluferlinu var
á tímamældar endurtekningar hljóðrænna
lykilatriða, eins og að umskrá milli bókstafa
og málhljóða, sem Ása átti sérstaklega í erfið-
leikum með og sagðist í upphafi kennslunnar
ekki muna, jafnvel ekki frá einu augnabliki
til annars. Ásu var strax kennt að draga yrt
málhljóð (öll sérhljóð og þau samhljóð sem
hægt er) í tvær sekúndur, og þess krafist í öllum
munnlegum æfingum (heyra og segja, sjá og
segja, hugsa og segja). Seinna í kennsluferlinu,
eins og við aðgreiningu á orðum með
einföldum og tvöföldum samhljóða, var byggt
á þessu verklagi. Þegar Ása byrjaði að kveða
að tveimur bókstöfum var henni einnig kennt
strax að bera hljóðin ekki fram stök og með
augnabliks hléi á milli, t.d. lll – aaa, heldur
að kveða að þeim með því að renna sér strax
af einu hljóði og yfir á annað, lllaaa, eins og
í talmáli (Guðríður Adda Ragnarsdóttir, 2007;
Ísak Jónsson, 1958; Maloney, o.fl., 2001).
Framvinda kennslunnar var sambærileg þeirri
sem kynnt var í lýsingu á DI-PT kennslu og
þjálfun nemanda með einhverfu (sjá Guðríður
Adda Ragnarsdóttir, 2007).
niðurstöður
Gögnin sýna óheft afköst (e. free operant)
nemandans (Ferster og Skinner, 1957; Lindsley,
1992) innan tiltekinna tímamarka sem oftast er
ein mínúta í senn. Á 1. mynd sést leshraði
Ásu. Áður en kennslan hófst las hún 37 rétt
atkvæði á mínútu í 2. texta. Þá óskaði hún eftir
að lesa textann aftur með lituðum gleraugum.
Það gerði hún, las 40 atkvæði rétt og bætti sig
um þrjú atkvæði (ekki sýnt á 1. mynd). Í bæði
skiptin las Ása óskýrt og sundurslitið. Erfitt
reyndist að skilja það sem hún sagði og rétt
lesin atkvæði voru á víð og dreif um textann.
Eftir 30 tíma kennslu og þjálfun með
margvíslegum hljóðrænum tækniæfingum (sjá
Guðríði Öddu Ragnarsdóttur, 2007, töflur bls.
76–78) mældist hraði á lestri 2. texta, sem
er viðmiðunartextinn, 104 rétt lesin atkvæði
á mínútu. Ása hafði bætt við sig 67 rétt
lesnum atkvæðum á mínútu og höfðu afköstin
aukist 2,8 falt (eða 180%; 104:37 rétt lesnum
atkvæðum á mínútu). Ný leikni yfirfærðist
einnig á efni sem hún hafði ekki séð áður og
náði hún 75 rétt lesnum atkvæðum á mínútu í
1. texta, sem er rúmlega tvöfaldur hraði hennar
(103%; 75:37) á fyrsta lestri 2. texta. Lestur
beggja texta var auk þess nær villulaus, eða
þrjár og tvær villur í hvorum texta. Þegar lestur
Ásu var prófaður aftur 30 kennslustundum
síðar (eftir 60 stundir alls) las hún 132 atkvæði
rétt í 2. texta. Hún hafði bætt við sig 95
rétt lesnum atkvæðum frá fyrstu mælingu og
höfðu afköstin aukist 3,6 falt (260%; 132:37).
Lesleiknin skilaði sér einnig vel í lestri 1. texta
sem hún las hér um bil eins hratt. Þar náði hún
127 réttum atkvæðum og höfðu afköstin aukist
1,7 falt (70%; 127:75) frá undangenginni
mælingu á lestri 1. texta. Ef leshraði 1. texta
er borinn saman við upphaflegan hraða á 2.
texta (127:37) er afkastaaukningin í lestrinum
3,4 föld (240%). Villutíðni var áfram lág, eða
fjórar villur í lestri hvors texta um sig.
Í maí 2007, sjö mánuðum eftir að kennslu
lauk, var Ása prófuð í lestri fjögurra texta
og hraðflettispilaæfingum. Hún hafði lesið 2.
texta fjórum sinnum áður (þar af einu sinni
með lituðum gleraugum), 1. texta hafði hún
lesið tvisvar, en 3. og 4. texta, sem voru heldur
þyngri en 1. og 2. texti, hafði hún aldrei séð
fyrr. Lestur á 2. texta mældist 150 atkvæði alls,
þar af 146 rétt og fjögur röng. Hún hafði þá
bætt 14 rétt lesnum atkvæðum við frá síðustu
mælingu. Ef hraðinn er borinn saman við
fjölda rétt lesinna atkvæða frá fyrsta lestri er
afkastaaukning á 2. texta nær fjórföld eða 3,96
föld (296%; 147:37). Lestur á 1. texta mældist
einnig 150 atkvæði alls, þar af 147 rétt lesin
atkvæði og 3 röng. Lestrarhraðinn frá síðustu
mælingu hafði aukist um 20 rétt lesin atkvæði.
36
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
Guðríður Adda Ragnarsdóttir