Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Page 70
68
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
Þegar litið er á tölur um mönnun í tón-
menntakennarastöður2 undanfarna áratugi
má sjá að erfiðlega hefur gengið að fá
kennara til starfa. Samkvæmt rannsókn
frá árinu 2005 bauð 21% skóla á landinu
ekki upp á tónmenntakennslu en það er
meira en 20% aukning á rúmlega tuttugu
árum (Helga Rut Guðmundsdóttir, 2008;
Menntamálaráðuneytið, 1983). Því er þó
ósvarað hversu margir nemendur í hverjum
skóla njóta tónmenntakennslu (Mennta-
málaráðuneytið, 1983, 2003). Benda má á
að árið 2003 var tónmennt einungis kennd
samkvæmt Aðalnámskrá í 1.–8. bekk í þremur
skólum (8,8%) í Reykjavík en 18 skólar (52,9%)
buðu eingöngu upp á tónmenntakennslu í 1.–7.
eða 1.–6. bekk. Aðrir skólar kenndu tónmennt
í færri árgöngum, nær alltaf á yngri stigum
(Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, 2003). Það er
umhugsunarefni hversu erfiðlega gengur að
fá tónmenntakennara til starfa en ekki síður
hversu erfitt virðist vera fyrir nýja kennara
að fóta sig í greininni almennt. Rannsóknir í
Bandaríkjunum hafa sýnt að þeir kennarar sem
endast ekki í starfi hætta flestir á fyrstu árunum.
Þar hafa menn t.a.m. áhyggjur af því að
33–50% allra kennara í landinu hætta á fyrstu
þremur árum sínum í starfi (Roulston, Legette
og Womack, 2005). Því voru í þessari rannsókn
könnuð viðhorf þeirra tónmenntakennara sem
reynst hafa farsælir í starfi. Í þeim tilgangi var
leitast við að svara eftirfarandi spurningum:
Hvaða þættir virðast helst hafa áhrif •
á vellíðan og starfsúthald tónmennta-
kennara sem ná góðum árangri?
Hvað er það helst sem mótar hlut- •
verka- og fagvitund tónmennta-
kennara?
Hvað einkennir viðhorf og starfs- •
hugmyndir tónmenntakennara sem
ná góðum árangri í starfi?
Hlutverka- og fagvitund tónmenntakennara
Christer Bouij, tónlistarkennari við háskólann
í Örebro í Svíþjóð, gerði langtímarannsókn
meðal nemenda sinna á félagsmótun tón-
listarkennara meðan á námi stendur og því
hvaða ferli mótuðu þroska hans. Rannsóknin
hófst 1987 þegar hann tók viðtöl við tónlistar-
kennaranema sem voru að hefja nám. Ári
síðar lagði Stephan Bladh, kennari við
tónlistarháskólann í Malmö, spurningalista
fyrir alla tónlistarkennaranema í Svíþjóð sem
voru að hefja nám og var þeim fylgt eftir með
spurningalistum með þriggja ára millibili, árin
1992 og 1995. Úr þeim hópi valdi Bouij 36
einstaklinga sem hann tók viðtöl við (Bouij,
1998; Bladh, 2002).
Niðurstöður Bladh sýndu að hlutfall þeirra
nemenda sem sögðust við upphaf náms vissir
um að þeir vildu verða tónlistarkennarar var
27%. Eftir þrjú ár í starfi fór hlutfallið í 19%
og sex árum eftir brautskráningu voru einungis
18% brautskráðra tónlistarkennara viss um að
þeir myndu og vildu kenna. Er þessi niðurstaða
í samræmi við áðurnefndar rannsóknir í
Bandaríkjunum. Það meginmarkmið með námi
tónmenntakennaranema að verða kennari er að
mati Bladh svo óljóst að það virkar á engan
hátt sem hvatning í menntuninni og er þar með
helsta ástæða þess hversu illa nemarnir skila
sér til kennslu. Kennslufræði og vettvangsnám
í tónlistarkennslu nær í huga nemandans ekki
að jafnast á við tónlistarflutning og listrænar
hliðar námsins (Bladh, 2002).
Í viðtalsrannsókn Bouij (1998) virtust við-
mælendur eiga erfitt með að greina að í námi
sínu eigin áhuga og forgangsmál á sviði tónlistar
og kröfur þær sem gerðar voru til þeirra sem
verðandi tónlistarkennara. Þar greindi Bouij
kjarna rannsóknar sinnar, þ.e. að samþætta
og setja í samhengi hugtökin, sjálfsvitund (e.
identity) sem er hin breytilega sýn sem hver
og einn hefur á sjálfan sig í framtíðarhlutverki
Kristín Valsdóttir
2 Starfsheitið tónmenntakennari nær yfir þá kennara sem sinna tónmenntakennslu í grunnskólum. Það hefur verið notað
til aðgreiningar frá þeim sem kenna í tónlistarskólum. Þeir kallast tónlistarkennarar. Hér er alltaf talað um tónmennt og
tónmenntakennara þegar vísað er til grunnskólakennara og kennslu tónmenntar í grunnskólum en orðið tónlistarkennari
eða tónlistarkennsla er notað þegar merkingin er víðtækari og nær einnig yfir kennara tónlistarskóla.