Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Blaðsíða 100
98
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
tölvutæku formi. Og þar sem þau læra
sem sagt að setja upp í Word og vinna
með töflur og myndefni og allt það. (Úr
viðtali 21. október 2005)
Samantekt og umræða
Í þessari grein er lýst rannsókn á því hvernig
fimm náttúrufræðikennarar notuðu upplýsinga-
og samskiptatækni (UST) í kennslu sinni.
Notkun hinnar stafrænu tækni reyndist
margbreytileg meðal þátttakenda, allt fá MSN
og tölvupóstsamskiptum yfir í djúpt hugsaða
forritun með tækni-legó. Sýn þeirra á gildi
UST í námi og kennslu reyndist einnig ólík
og reyndar einnig á kennsluhætti almennt. En
þrátt fyrir margbreytileika vakti það athygli
að mikilvægir notkunarmöguleikar UST
í náttúrufræðinámi virtust lítið nýttir meðal
kennaranna fimm, t.d. skráning, úrvinnsla og
túlkun gagna með hjálp töflureiknis, notkun
stafrænna mælitækja, t.d. voga og hitamæla, og
hermilíkön. Loks þótti það eftirtektarvert hve
aðstæður kennaranna reyndust ólíkar og einnig
sá skólabragur sem ríkti í skólunum fimm.
Bennett (2003) komst að þeirri niðurstöðu
að nýting UST í náttúruvísindanámi væri að
mestu háð faglegum ákvörðunum kennara
og viðhorfum, þ.e. starfskenningu. Hugtakið
starfskenning vísar til þeirra hugmynda sem
liggja að baki beinum athöfnum kennara í starfi
(Ragnhildur Bjarnadóttir, 1993). Hugmyndir
og ákvarðanir í þeim efnum eru bæði faglegar
og persónulegar því að þær mótast af þeirri
þekkingu og reynslu sem kennarinn öðlast í
námi og starfi og þær eru einnig háðar
persónulegum einkennum kennara, lífssýn,
viðhorfum og gildismati. Svo virðist sem
starfskenning hafi ráðið meiru um ákvarðanir
kennaranna fimm en sérstaða greinarinnar
og sú menning eða hefð sem henni fylgdi
(sbr. subject-specific practice). Þau höfðu
til að mynda ólíka sýn á stöðu sína og
skyldur gagnvart nemendum, allt frá því
meginhlutverki að miðla þekkingu og halda
nemendum við námsefnið yfir í að „spekúlera
í þessu með þeim“ og taka „dítúra“ eins
og Símon orðaði það og taka þannig mið
af margbreytileika nemenda. Hjá honum, og
reyndar Ólínu líka, mátti þó sjá merki um
hollustu við námsgreinina og eðli hennar því
að þau viðhöfðu kennsluhætti sem einkenndu
vinnubrögð og færni í náttúruvísindum en
sýndu þó mismikla tilburði til að nýta sér
þá fjölmörgu möguleika sem UST hefur að
bjóða.
Þetta tvennt, breytileg fagleg sýn og
meint vannýting á möguleikum UST, bendir
óneitanlega til þess að náttúrufræðikennarar
þurfi á auknum stuðningi að halda, bæði innan
frá og utan. En eins og Bennett (2003) benti
á nægja hefðbundin símenntunarnámskeið
ekki til. Skapa þarf vettvang fyrir kennara
til að mynda samfélag um vinnubrögð og
kennsluhætti (sjá einnig OECD/CERI, 2008,
2009), sbr. einmitt það sem bæði Saga og
Jakob nefndu í viðtölum. Traustur stuðningur
frá nánasta umhverfi er jafnframt mikilvægur,
einnig svigrúm fyrir innra skipulag og að-
gengi að viðeigandi búnaði þar sem námið
færi fram, ekki nægir aðgangur að sérbúinni
tölvustofu. Mikilvæg niðurstaða Bennett er á
þá leið að greiður aðgangur að UST við öflun,
mælingar og skráningu gagna (data-logging) og
líkanagerð, t.d. gerð hermilíkana (simulations),
geti skipt sköpum því að hann spari tíma við
meðferð gagna og gefi meira svigrúm en ella
fyrir umræðu og túlkun þess sem meginmáli
skipti í námsferlinu. Þetta kemur einnig heim
og saman við rannsóknir á námi sem ferli
og áherslum á vinnubrögð og aðferðir (sbr.
Baggott La Velle o.fl., 2003).
Vægi UST í námi og kennslu í náttúru-
vísindum
Notkun UST fær greinilega mismikið rými og
tíma í kennslu hjá náttúrufræðikennurunum
fimm. Þrír þeirra, þ.e. Aðalsteinn, Saga og
Jakob, virðast ekki leggja mikla áherslu á
notkun stafrænnar tækni í námi, a.m.k. ekki í
þeim mæli sem aðalnámskrá virðist gera ráð
fyrir. Hin tvö nota tæknina allnokkuð, einkum
Símon. Ef til vill á þessi varkárni sér svipaðar
skýringar og Peter John (2005) setti fram í
fyrrnefndri rannsókn. Fagkennarar reyndust
Meyvant Þórólfsson, Allyson Macdonald og Eggert Lárusson