Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Side 134
132
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
kennarans fyrir börnum í hans umsjá þurfi
ekki endilega að koma af sjálfu sér. Umhyggju
þurfi að rækta og ígrunda, annars sé hætta
á að hún verði látin í té af einhvers konar
skyldurækni, verði vélræn. Þess vegna má
halda því fram að umhverfi leikskóla sem
einkennist af umhyggju fyrir einstaklingnum
sé þroskavænlegt umhverfi þar sem reynt er
að mæta þörfum allra barnanna. Umhyggja
hefur að mati Goldstein (2002) verið vanmetin
í skólastarfi þar sem fyrst og fremst hefur verið
litið á umhyggjusama kennarann sem þann
sem veitir hlýtt faðmlag, brosir blítt og hefur
endalausa þolinmæði gagnvart börnum. Þetta
er ímynd kennara sem allt að því kæfir börnin
með góðsemi sinni og gæti stuðlað að lærðu
hjálparleysi. Þessi mynd er að sumu leyti rétt
því að umhyggjusamur kennari hlustar og er til
staðar fyrir börnin en eins og fram hefur komið
snýst umhyggja um fleira. Umhyggjusamur
kennari lætur sér annt um börnin, gerir kröfur,
er sveigjanlegur en umfram allt býr hann yfir
faglegri færni.
Hugtökin umönnun og umhyggja eru
áberandi í opinberum skjölum og gögnum
sem leikskólastarf á Íslandi á að byggjast
á. Hlýleg og traust umönnun sem fléttast
inn í daglegt líf og starf leikskóladagsins er
grundvallarforsenda þess að börn geti unað
sér, leikið sér og lært (Menntamálaráðuneytið,
1985, 1993).
Ábyrg umönnun er fólgin í því að annast
börnin líkamlega og andlega af hlýju,
áhuga og ábyrgðarkennd. Með slíkri
umönnun skapar starfsfólkið náin til-
finningatengsl og trúnaðartraust milli sín
og barnanna. Slík tengsl veita börnunum
öryggi til þess að láta í ljós tilfinningar
sínar, leika sér frjálst og skapandi, eiga
frumkvæði, kanna umhverfi sitt og standa
á eigin fótum eftir því sem þau hafa
þroska til.
(Menntamálaráðuneytið, 1993, bls. 44).
Í Aðalnámskrá leikskóla (Menntamála-
ráðuneytið, 1999) er tekið fram að veita eigi
börnum umönnun og búa þeim hollt umhverfi
og örugg leikskilyrði. Auk þess segir, á bls.
5: „Með nýrri aðalnámskrá fyrir leikskóla,
hinni fyrstu sem gefin er út á Íslandi, er
umhyggjan fyrir barninu höfð að leiðarljósi.“
Samkvæmt því hefur verið litið svo á að stoðir
leikskólastarfsins – auk leiksins – væru traust,
hlýja og umönnun, þar sem umhyggja fyrir
barninu væri höfð í forgrunni. Það má því
vera að hugtakið umönnun tengist frekar sýn
á leikskóla sem gæslustofnun, en hugtakið
umhyggja sýn á leikskóla sem menntastofnun.
Hugsanlegt er að það sé ástæða þess að víða
í leikskólaumhverfinu er ekki gerður skýr
greinarmunur á þessum tveimur hugtökum.
Fleiri hliðar má finna; til dæmis að í
leikskóla þurfi að vera rými til að skapa, til
að hugsa og til að ræða saman (Dahlberg,
2004; Noddings, 2005; Rinaldi, 1999; Smith,
1993). Samkvæmt því felst umhyggja fyrir
barninu m.a. í umhverfinu, þar sem allt sem
að framan er talið vinnur saman og tengist
innbyrðis. Umhverfið sendir ákveðin skilaboð
um það sem ætlast er til af börnunum sem þar
starfa og leika sér. Hægt er að lesa viðhorf til
barna út frá skipulagi rýmisins, staðsetningu
og aðgengi barnanna að efniviði leikskólans að
mati Nordin-Hultman (2005).
Markmið og rannsóknar-
spurning
Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á skiln-
ing leikskólakennara á umhyggju í leikskóla-
starfi og þýðingu þess skilnings fyrir þroska
og færni barnsins til að læra. Til að nálgast
markmiðið var sett fram rannsóknarspurningin
„Í hverju felst umhyggja að mati leikskóla-
kennara?“
Mér er ekki kunnugt um að gerð hafi verið
sambærileg rannsókn í íslenskum leikskólum,
né heldur erlendum, þar sem þeir sem vinna
með börnunum skilgreina hugtökin umhyggja
og umönnun.
Aðferð
Þátttakendur og gagnaöflun
Þátttakendur voru leikskólakennarar og
leiðbeinendur í tveimur leikskólum. Bæði
Sigríður Síta Pétursdóttir