Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2009, Side 154
152
Tímarit um menntarannsóknir, 6. árgangur 2009
Höfundar fjalla meðal annars um lestraráhuga
sem talinn er fara þverrandi þegar líður á
grunnskólann, og þá ekki síst hjá drengjum.
Þar gæti valdið að boðið sé upp á lítt áhugavert
efni sem kallar ekki á ígrundun og umræðu
Kennaranám
Alllangur og greinargóður kafli er í skýrslunni
um kennaranám. Sú heildarmynd sem þar er
gefin er að flestu leyti rétt, en hana mætti þó
skýra betur. Á undanförnum árum hefur sú
breyting orðið að umfjöllun um lestur hefur
horfið úr kjarna, en henni hefur þó ekki verið
hætt. Hún var talsverð fyrir fáeinum árum,
og þá mest um lestur og mál yngri barna.
Umfjöllun um læsi má þó finna hér og hvar í
náminu en þar skortir heildarsýn og útkoman
er fremur óljós stefna í þessum málum. Það er
rétt að lestri eru eðlilega gerð skil á kjörsviði
yngri barna. Þar hefði þó mátt bæta við meiri
kennslu um lesskilning, lestrarhvatningu og
samvinnu við foreldra. Þetta kjörsvið fjallar um
nám og kennslu barna frá 6–10 ára, þ.e. fimm
ár af tíu í grunnskólanámi. Umræða hefur verið
um að meiri áhersla sé lögð á fyrstu árin en þau
síðari sitji fremur á hakanum hvað nám í lestri
og ritun varðar. Nú á að bæta úr þessu með 10
eininga námi um íslensku og tjáningu.
Á kjörsviði í íslensku er fjallað m.a. um
bókmenntir og skilning á þeim, málfræði og
stafsetningu. Eitt stutt námskeið var kennt um
skeið þar sem fjallað var um íslenskukennslu.
Þar fékk lestrarnám og ritun í kennslu rúm,
en hvergi nærri nægjanlegt. Nú á að bæta úr
þessu og nýtt 10 eininga námskeið hefst í
haust sem fjallar um lestur og ritun á mið- og
unglingastigi. Það skal þó undirstrikað að
kennarar í íslensku fjalla í námskeiðum um
móðurmálskennslu í flestum myndum. Þetta
starf á kjörsviðum yngri barna og íslensku er
langt í frá nægjanlegt þegar á heildina er litið
og eftir situr að fjöldi kennaranema fær nánast
enga fræðslu um læsi og kennslu í lestri og
ritun.
Það er afar brýnt að styrkja nám á þessu
sviði í kennaramenntun og ekki fært annað
en að vinna ötullega að breytingum sem til
heilla horfa. Skýrslan gefur m.a. tilefni til
þess. Huga þarf rækilega að því hvað gert er í
kennaranáminu og hvernig það samrýmist því
starfi sem við tekur að námi loknu.
Talsvert er rætt í skýrslunni um símenntun
kennara. Þar virðist hafa orðið breyting til
hins verra á liðnum árum, eftir að kostnaði
var velt yfir á skólana. Fé til símenntunar í
hverjum skóla ræður, að því er virðist, vali
á námskeiðum fremur en þörf kennara og
nemenda. Þetta á þó sjálfsagt ekki við í öllum
tilvikum.
Lokaorð
Það er ljóst að íslenska skólakerfið hefur
ekki fylgst nægilega vel með þeim miklu
breytingum sem hafa orðið á þörf fyrir traust
læsi meðal þjóðarinnar. Kröfur hafa verið að
aukast jafnt og þétt og greina má talsverðan
mun á kröfum til læsis nú eða fyrir 10–15 árum.
Þetta má meðal annars lesa út úr alþjóðlegum
rannsóknum og ýmsum athugunum, formlegum
og óformlegum, sem hér hafa verið gerðar.
Þrýstingur á aðrar námsgreinar, bæði í
grunnskólum og í kennaranámi, hefur einnig
vaxið og nýjar greinar bæst við sem taldar
eru nauðsynlegar í nútíma samfélagi. Læsi og
þróun ritunar og lestrar hefur orðið hornreka,
sennilega vegna þess að ekki er litið svo á að
hér sé um námsgrein að ræða. Þetta kemur
okkur í koll vegna þess hve þessi færni er
mikilvæg fyrir allt nám og andlegan þroska.
Bagalegt er að ekki skuli vera meira rúm fyrir
svo mikilvægan þátt í of stuttu kennaranámi en
raun ber vitni. Nú er kennaranám að lengjast
í fimm ár. Þess er vænst að úr rætist en þó
virðist lítil von til þess ef marka má fregnir af
undirbúningi.
Skýrslan er athyglisverð viðbót við þær
upplýsingar sem liggja fyrir um stöðu
lestrarkennslu í landinu.
Rannsóknarrýni